Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikið uppbyggingarstarf framundan í Köldukinn

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Mikil uppgræðsla bíður ábúenda á Björgum í Köldukinn eftir skriðuföllin þar fyrr í vikunni. Bændur segja þó gott að komast aftur heim. Verktakar voru í allan dag að hreinsa aur af vegum í Útkinn og gera við ljósleiðara sem fór í sundur.

Skriðurnar í Útkinn féllu á um tíu kílómetra svæði frá bænum Þóroddsstöðum og alveg út í Naustavík við Skjálfandaflóa.

Mestöll hlíðin ofan við Björg hlaupið fram

Skriðusárin eru hér og þar út alla Útkinn en hvergi er ástandið þó í líkingu við það sem er í landi Bjarga, ysta bæjar í Kinninni. Þar hefur mestöll hlíðin ofan við bæinn hlaupið fram og aur og vatn kaffært tún heima við bæ. „Það var bara ofboðslega ljúft að koma heim. Auðvitað er þar erfitt að sjá hvernig ástandið  er. En bara gott að vera komin heim og hafa fengið leyfi til þess,“ segir Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum.

„Sáum ekki hvað var að gerast en heyrðum miklar drunur“

Ein skriðan stöðvaðist aðeins um 7-8 metra frá fjósinu á Björgum. Bændurnir voru að mjólka þegar þetta gerðist og þeim leist ekki á blikuna. „Ég viðurkenni alveg að það fór vel um okkur þá,“ segir Jóna Björg. „Eins um kvöldið þegar við heyrðum þessar stóru skriður falla hérna fyrir aftan okkur. Við sáum ekki alveg hvað var að gerast en heyrðum miklar drunur. Og ég segi það alveg núna að það sló alveg hjartað.“

Þurfa að endurrækta tún og græða upp fjallið

Bændanna á Björgum bíða ærin verkefni við að endurrækta tún og græða upp fjallið. Jóna segir þau strax byrjuð að huga að uppbyggingunni. „Það er verið að ræsa hérna frá veginum og gera hann færari og það á held ég meira að segja að keyra eitthvað í hann og hjálpa okkur. Við erum svo jafnframt að skipuleggja hvernig við komum vatninu í burtu. Ég held að það sé svona stærsta verkefnið sem við getum farið í núna strax.“

Víða skemmdir á veginum um Útkinn

Vegurinn heim að Björgum fór á kaf í aur og bleytu og verktakar Vegagerðarinnar vinna nú að því að hreinsa hann aftur og lagfæra. Og það eru víða skemmdir á veginum um Útkinn og hann er lokaður almennri umferð nema undir eftirliti.

Ljósleiðarinn í sundur á tveimur stöðum 

Þá liggur ljósleiðari um sveitina, en hann fór í sundur á tveimur stöðum og netsambandið rofnaði heim að bæjum. „Skemmdin er náttúrulega bara sú að ljósleiðarinn er í sundur,“ segir Reynir Sigurðsson, starfsmaður Tengis. „En að komast að þessu og laga, það er svolítið flóknara. Því bleytan er svo gríðarleg í kringum að það komast engar vélar að eða neitt. Þannig það er kannski það sem er vanadmálið.“

Spáir aftur rigningu á morgun

Það er áfram hættustig í Kinninni og spáir allmikilli rigningu þar seinnipartinn á morgun og annað kvöld. Jóna Björg  segir þau vel meðvituð um það. „Við vitum að almannavarnir eru að skoða stöðuna og þau eru að funda um málið. Við fylgjum bara þeim leiðbeiningum sem okkur eru gefnar og við förum auðvitað aftur út af svæðinu ef til þess kemur, en svo komum við bara aftur.“