
„Mesta spennan milli Taívan og Kína í 40 ár“
Undanfarna daga hefur metfjöldi kínverskra orustuþotna flogið inn í lofthelgi Taívan. Þær hafa verið yfir 600 í þessum mánuði, tvöfalt fleiri en allt síðasta ár. Þetta líta stjórnvöld í Taívan á sem ögrun. Þau telja Taívan vera sjálfstætt ríki, meðan Kína lítur á það sem hérað innan landsins, og á stjórnvöld í Taívan sem aðskilnaðarsinna.
Bandarísk yfirvöld hafa lýst áhyggjum af þessu. „Við hvetjum Beijing til að hætta hernaðarlegum, diplómatískum og efnahagslegum þrýstingi og þvingunum gegn Taívan. Við höfum ævarandi áhuga á friði og stöðugleika þvert yfir Taívanssund. Þess vegna höldum við áfram að aðstoða Taívan að viðhalda hæfilegri sjálfsvarnargetu,“ sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, spurð um stöðuna.
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins svaraði því til í yfirlýsingu að Taívan tilheyrði Kína. Bandaríkjamenn væru ekki í neinni stöðu til að viðhafa óábyrg ummæli þar um og allt yrði gert til að brjóta á bak aftur allar tilraunir til sjálfstæðis Taívan.
Forseti landsins, Tsai Ing-wen, sagði í gær að það hefði skelfilegar afleiðingar fyrir frið og lýðræði í Asíu ef Taívan félli í hendur Kínverja. Taívanar myndu gera það sem þyrfti til að verja sig.
Chiu Kuo-cheng, varnarmálaráðherra landsins tjáði sig svo um ástandið í morgun. „Ég get sagt þingheimi að frá bæjardyrum okkar í hernum séð, er núverandi ástand það versta á mínum 40 árum í hernum
Og hann ræddi möguleikann á árás af hálfu Kína. „Ef við skapraunum þeim er það eins og að ergja manneskju. Manneskja grípur til allra tiltækra ráða þegar hún er pirruð. Við metum það svo að árið 2025 verði þeir tilbúnir að gera árás,“ sagði Chiu án þess að útskýra nánar hvað gerði það að verkum að Kínverjar yrðu tilbúnir þá.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur boðað samtal við Xi Jing Pin forseta Kína á næstunni.