Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.
Græningjar leita til vinstri
06.10.2021 - 09:13
Skriður er kominn á stjórnarmyndunarviðræður í Þýskalandi. Annalena Baerbock, leiðtogi Græningja, greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að flokkurinn myndi leitast eftir að mynda ríkisstjórn með Jafnaðarmönnum og Frjálslyndum demókrötum.
Græningjar hafa síðustu vikur átt í óformlegum viðræðum bæði við Jafnaðarmenn og Kristilega demókrata, flokk Angelu Merkel fráfarandi kanslara.
Á blaðamannafundi í Berlín í dag sagði Baerbock það mat flokksforystunnar að meiri samhljómur væri með Græningjum og Jafnaðarmönnum í umhverfismálum, félagshyggjumálum og Evrópumálum.
Kosið var til þings í Þýskalandi í lok september. Jafnaðarmenn fengu mest fylgi en Kristilegir demókratar litlu minna. Þótt flokkarnir tveir hafi setið saman í fráfarandi ríkisstjórn höfðu þeir fyrir löngu gefið út að ekki yrði framhald á því stjórnarsamstarfi.
Því hafa Græningjar, sem fengu tæp 15 prósent í kosningunum, og Frjálslyndir demókratar, sem fengu 12 prósent, verið með lykilinn að stjórnarmyndun.