Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Dramb er helsti lærdómur hrunsins

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þegar Geir Haarde bað Guð að blessa Ísland áttaði maður sig fyrst á alvöru málsins, segir forseti Íslands. Mikilvægt sé að fólk fyllist ekki drambi - það sé helsti lærdómur bankahrunsins. 

Í dag eru þrettán ár frá allóvenjulegu ávarpi sem þáverandi forsætisráðherra flutti í Sjónvarpinu. 

„Góðir Íslendingar ég hef óskað eftir að fá að ávarpa ykkur á þessari stundu.“ Á þessum orðum hófst ávarp Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, 6. október 2008.

Ávarpið flutti Geir klukkan fjögur síðdegis mánudaginn sjötta október og lauk því á eftirminnilegan hátt:

„Guð blessi Ísland.“

Sjá: „Guð blessi Ísland“ - ávarpið í heild

Forsetinn var staddur á kennarastofunni í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hann kenndi, þegar hann heyrði ávarpið. 

„Þá fyrst áttaði maður sig kannski á alvöru málsins. Þessi dagur er auðvitað einn magnþrungnasti dagur sögu okkar Íslendinga í seinni tíð. Bankakerfið rambaði á barmi hruns og hrundi svo með braki og brestum. Hrunið hafði áhrif á fjölda fólks. Margt fólk sem hafði ekkert til saka unnið þurfti að þola miklar búsifjar. Og hrunið hafið áhrif á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Þrátt fyrir allt sem miður fór tókst að gera margt vel hér á þeim árum sem í hönd fóru þótt ýmislegt hefði mátt gera enn betur. Við þurfum að ná þessu gullna jafnvægi: Að hafa heilbrigt sjálfstraust en fyllast ekki drambi. Það er kannski einn helsti lærdómur hrunsins,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.