Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ástralir hætta að senda flóttamenn til Manus

06.10.2021 - 04:44
epa06305451 A handout photo made available by Srirangan shows asylum seekers refusing to leave the Manus Island Detention Centre, Papua New Guinea, 31 October 2017 (issued 03 November 2017). More than 600 refugees and asylum seekers are refusing to leave
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Ástralíu samþykktu í morgun að hætta að senda flóttamenn sem koma sjóleiðina til landsins í flóttamannabúðir á eyjuna Manus við Papúa Nýju-Gíneu. Stjórnir landanna greindu frá þessu í morgun.

Samningur ríkjanna verður ekki endurnýjaður eftir að hann rennur út um áramótin að sögn AFP fréttastofunnar. Flóttamenn verða áfram sendir á Kyrrahafseyjuna Nauru.

Það var ekki haft hátt um það þegar flóttamannabúðirnar á Manus voru tæmdar árið 2019. Samtök um réttindi flóttamanna segja enn um hundrað flóttamenn í Port Moresby. 

Í yfirlýsingu ríkjanna segir að stjórnvöld á Papúa Nýju-Gíneu fari nú með full völd yfir þeim flóttamönnum sem Ástralir sendur til ríkisins og dvelja þar enn. Þarlend stjórnvöld ætla að aðstoða þá sem vilja við að fá dvalarleyfi í landinu, og jafnvel ríkisborgararétt. Þeir sem vilja yfirgefa landið verða sendir til Nauru eða komið fyrir í einhverju öðru ríki.

Hörð flóttamannastefna Ástrala er verulega umdeild jafnt heima fyrir sem utan Ástralíu. Flóttamenn sem sigla frá Asíu til Ástralíu eru rakleiðis sendir í flóttamannabúðir á Kyrrahafseyjunum, þar sem aðstæður eru ömurlegar að sögn þeirra sem þangað hafa komið.