Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

AGS: Verðbólga heldur áfram að aukast

06.10.2021 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verðbólga í heiminum heldur áfram að aukast á næstu mánuðum og nær ekki jafnvægi fyrr en um mitt næsta ár, samkvæmt nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Verðlag hefur hækkað á þessu ári, um leið og hagkerfi heimsins ná vopnum sínum á ný eftir efnahagskreppuna sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum. AGS bendir á vöruskort, truflanir á aðfangakeðjum og örvunaraðgerðir seðlabanka sem helstu orsakaþætti verðbólgunnar. 

AGS spáir því að í ríkari löndum nái verðbólgan hámarki í lok þessa árs og dragist svo saman um tvö prósent fyrir mitt næsta ár. Í fátækari löndum nái verðbólgan hámarki í 6,8 prósentum seint á þessu ári og dragist saman í fjögur prósent á næsta ári. 

Þó er bent á að mikil óvissa ríki um spána og að stjórnvöld þurfi að hafa í huga að enn sé hætta á að verðbólga rjúki upp úr öllu valdi. Framkvæmdastjóri Sjóðsins sagði á blaðamannafundi í gær að verðbólga væri ein helsta hindrun í efnahagsbata heimshagkerfisins eftir heimsfaraldurinn. 

Í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans er því spáð að verðbólga hér á landi verði 4,2 prósent á þessu ári og 2,8 prósent á næsta ári. Íslandsbanki spáir því að verðbólga hér á landi haldi áfram að aukast út þetta ár og verði 4,4 prósent í desember. Hún láti undan síga næstu mánuði á eftir og nálgist 2,5 prósenta markmið Seðlabankans seint á næsta ári.