Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rýming á Seyðisfirði í gildi fram yfir helgi

05.10.2021 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur ákveðið að rýming á Seyðisfirði verði í gildi fram yfir helgi. Þar voru níu hús rýmd í gær og 19 íbúar þeirra fengu húsaskjól annars staðar. Hættustig er jafnframt enn í gildi.

Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að hreyfing mælist enn á flekanum milli skriðusársins frá því í desember og Búðarár. Talsverðri úrkomu er spáð á svæðinu þegar nær dregur helgi og því hafi verið ákveðið að láta rýningu vara fram yfir helgi. 

Herðubreið verður opin milli klukkan 14 og 17 í dag. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta og geta þá fengið aðstoð við að fara að og huga að húsum sínum hafi þeir hug til þess.

Fulltrúar Rauða krossins verða í Herðubreið, Múlaþings og lögreglu, segir í tilkynningunni og minnt á hjálparsíma Rauða krosssins í síma 1717.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV