Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óhappatilviljun og slys talin hafa valdið dauða Vilks

05.10.2021 - 01:20
epa09505757 Police officers and forensic science technicians work at the scene after a road accident between a car and a lorry, outside the town of Markaryd, Sweden, 04 October 2021. Swedish visual artist Lars Vilks and two police officers died in a car accident outside the town of Markaryd in southern Sweden on 03 October 2021.  EPA-EFE/JOHAN NILSSON  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Rannsókn stendur enn yfir á því hvað olli umferðarslysinu sem varð sænska listamanninum Lars Vilks og tveimur lögreglumönnum að bana á sunnudagskvöld. Líklegast er talið að slys hafi orðið.

Ómerkt lögeglubifreið þremenninganna lenti í árekstri við flutningabíl skammt frá bænum Markaryd í Smálöndum í Svíþjóð.

Vilks var hótað bana allt frá því að skopmynd eftir Vilks af spámanninum Múhammeð í líki hunds birtist í sænsku blaði árið 2007. Iðulega var ráðist að honum og  Al-Kaída-samtökin hétu fé til höfuðs honum.

Undanfarin ár hafði Vilks verið undir vernd lögreglu en sænsk lögregluyfirvöld segja ekkert benda til þess að ódæðismenn hafi verið að verki. Einn fyrrverandi lífvarða hans segist ekki geta ímyndað sér annað en slys í samtali við sænska ríkísútvarpið.

Hann telur að í raun hafi óhappatilviljun valdið því sem gerðist. Fyrir liggur að bílnum sem Vilks var farþegi í var ekið yfir á rangan vegarhelming en ekki er vitað hvers vegna það gerðist.

Ein kenning lögreglu er að dekk hafi hreinlega sprungið á bílnum og ökumaðurinn því misst stjórn á honum. Einnig bendir margt til þess hratt hafi verið ekið.

Lífvörður Vilks segir hraðan akstur ekki óvenjulegan en að lögreglumenn þeir voru með honum í bílnum hafi verið  afar hæfir og ólíklegt að þeim yrðu á alvarleg mistök.

Hann vonast til að hverjum steini verð velt við til að komast að hinu sanna svo að samsæriskenningum um örlög Lars Vilks linni.