Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blinken hyggst reyna að milda bræði Frakka

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna fundar með frönskum kollega sínum Jean-Yves Le Drian á morgun. Ferðin var ákveðin áður en deilur ríkjanna vegna riftunar Ástrala á kaupum kafbáta hófust.

Viðbúið þykir að samtal þeirra einkennist af varfærnislegum tilraunum Blinkens til að blíðka Frakka sem enn eru öskureiðir vegna riftunar Ástrala á milljónasamningi um kaup á frönskum kafbátum.

Þess í stað sömdu þeir við Bandaríkjamenn um að fá að nýta sér tækni þeirra við smíði kjarnorkukafbáta.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kallaði sendiherra heim frá Washington og Canberra eftir að Bandaríkin, Bretland og Ástralía tilkynntu um Aukus-samkomulagið, nýtt varnarbandalag sem felur í sér víðtækt samstarf ríkjanna á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Sendiherra Frakka í Washington sneri þó aftur þangað eftir samtal Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Emmanuels Macron forseta Frakklands undir lok síðasta mánaðar.  

Áframhaldi samningaviðræðna Evrópusambandsins og Ástralíu um fríverslunarsamkomulag hefur verið slegið á frest fram í nóvember. Ástæðu þess má rekja til reiði Frakka vegna samningsrofanna.

Le Drian sagði samkomulagið vera eins og rýtingsstungu í bak Frakka en Karen Donfried, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Evrópu, viðurkenndi í síðustu viku að betra hefði verið að ræða við önnur bandalagsríki áður en tilkynnt var um samkomulagið.

Hún segir að Aukus sé ekki ætlað að koma í stað annarra varnarsamninga eða samstarfs ríkja. Hún segir Bandaríkin miklu frekar fagna því að ræða hvernig ríki Evrópusambandsins og önnur bandalagsríki gætu komið að málum.

Talskona Le Driens segir að samtal ráðherranna á morgun sé lítið skref í áttina að endurnýjuðu trausti milli ríkjanna. Blinken hittir Macron ekki í Frakklandsför sinni sem þykir til marks um að enn kraumi í Frökkum bræðin.

Þó er ætlunin að Emmanuel Bonne, utanríkismálaráðgjafi forsetans taki á móti Blinken.