Tómas R Einarsson - Ávarp undan sænginni

Mynd: Ávarp undan sænginni / Aðsend

Tómas R Einarsson - Ávarp undan sænginni

04.10.2021 - 15:30

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Tómas R. Einarsson hefur verið viðriðinn íslensku jazz-senuna undanfarna áratugi og gefið út á fjórða tug hljómplatna undir sínu nafni, og í slagtogi við aðra. Nú hefur Tómas R. sent frá sér plötuna Ávarp undan sænginni, sem inniheldur tíu ný lög hans sem eru sungin af Ragnhildi Gísladóttur.

Á nýju plötunni hefur Tómas R. Einarsson gert lög sín við kvæði ýmissa skálda, þar sem efni ljóðanna er ást, tregi og söknuður. Platan er í jözzuðum latin-stíl sem hefur verið einkenni verka Tómasar síðustu ár. Ragnhildur Gísladóttir syngur öll lögin eins og fyrr sagði en hljóðfæraleikarar eru; Ómar Guðjónsson á gítar, Davíð Þór Jónsson á píanó og hammond-orgel, Magnús Tryggvason Elíassen á trommur og slagverk, en Tómas R. spilar að sjálfsögðu sjálfur á kontrabassann.

Plata vikunnar að þessu sinni á Rás 2 er plata Tómasar R Einarssonar - Ávarp undan sænginni og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Tómasar, hún verður jafnframt aðgengileg í spilara.