Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stefnubreyting í baráttunni við faraldurinn

Mynd með færslu
 Mynd: Ríkisstjórn Nýja-Sjálands
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, viðurkenndi í morgun að nýrrar stefnu væri þörf í baráttu við kórónuveirufaraldurinn. Fjölgun bólusettra auðveldi stefnubreytinguna en Delta-afbrigðið breytti sviðsmyndinni mjög. Smám saman verður slakað á takmörkunum í Auckland, stærstu borg landsins.

Sú aðferð að stöðva útbreiðslu veirunnar með útgöngubanni og lokun landamæra hefði ekki náð að halda aftur af Delta-afbrigðinu í Auckland.

Sú aðferð var hyllt mjög, til dæmis af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Aðeins 27 hafa látist af völdum sjúkdómsins í landi sem telur 5 milljónir manna.

Ardern sagði að smám saman verði slakað á aðgerðum þar, sem hafa nú gilt í sjö vikur. Það verði gert þótt nýgengi smita hafi ekki farið mikið niður en stjórnvöld hyggjast meta stöðuna í borginni vkulega.

Þar til að yfirstandandi bylgja skall á í Auckland gátu Nýsjálendingar lifað nánast í sama takti og fyrir faraldur, nema á meðan gripið var til útgöngubanna sem aldrei urðu jafn langtvinn og það sem nú gildir í borginni.

Allt að tíu mega hittast utandyra frá og með næstkomandi miðvikudegi og á næstu vikum verður hugað að opnun verslana og skóla. 

Ardern sagði Delta-afbrigðið hafa breytt sviðsmyndinni og að mögulegt væri að breyta um stefnu nú í ljósi þess hve margir væru bólusettir við COVID-19. „Þrátt fyrir langvarandi takmarkanir höfum við ekki komist niður á núllið,“ sagði hún í samtali við fréttamenn.

„Áður þurftum við að reyna að útrýma veirunni þar sem engin bóluefni voru til. Nú eru þau komin og því getum við breytt aðferðum okkar,“ bætti Ardern við. 

Judith Collins , leiðtogi stjórnandstöðunnar gagnrýndi Ardern nokkuð fyrir að hafa aðeins lagt fram óljósan óskalista um hvað verði gert í stað þess að stefna í áttina að engu smiti í samfélaginu.