Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margar stórar skriður

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Mikil mildi má teljast að ekki hafi fallið skriður á hús í Suður-Þingeyjarsýslu. Af þeim hátt í 20 skriðum sem hafa fallið eru að minnsta kosti fimm þeirra mjög breiðar. 

Um fimm til sex stórar skriður

Ofanflóðasérfræðingar hafa ekki getað gert nákvæma mynd af stærð og umfangi skriðanna sem hafa fallið í Kinn og Út-kinn. Sú vinna fer í gang þegar öruggt verður að fara inn á svæðið. Sveinn Brynjólfsson sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að eftir myndum að dæma virðast lengstu skriðurnar vera um 800 metra langar og um 150-200 metra breiðar. Það séu um 5-6 skriður af þessari stærðargráðu. Milli Nípár og Bjarga er fjallið orðið eitt svöðusár og erfitt að segja til um hvað skriðurnar sem þar féllu hafi verið margar en þær féllu í mörgum áföngum. 

Sloppið ótrúlega vel 

Mikil mildi þykir að skriðurnar hafi ekki fallið á hús. Sveinn segir að á Björgum hafi skriðan farið mjög nálægt bænum. „Hún stöðvast bara skammt ofan við fjósið á Björgum, ég veit ekki um annað sem fellur svona nærri húsum. Þetta hefur tekið girðingar og lokað veginum á nokkrum stöðum og raflínan er umflotin af skriðum á einhverjum kafla en það virðist ekki hafa brotið neina staura, alla vega í gær var enn þá rafmagn á línunni alveg út í Björg. Það hefur sloppið ótrúlega vel að því leyti.“

 

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir