Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrrum forsætisráðherra greinir frá áreitni

epa09504994 Danish former prime minister Helle Thorning-Schmidt at a publishing house in Copenhagen, Denmark, 01 October 2021 (issued 04 October 2021). French ex-president Valery Giscard d'Estaing and two unnamed former leaders are accused of inappropriate behavior towards Helle Thorning-Schmidt in a new book written by the Danish former prime minister. The book titled 'Blondinens betragtninger' (lit. The Blonde's Consideration) will be published on 04 October 2021.  EPA-EFE/IDA MARIE ODGAARD  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Helle Thorning-Schmidt, fyrrum forsætisráðherra Danmerkur, segir mikilvægt að umræða um kynferðisbrot gegn konum fjari ekki út. Hún sendi í morgun frá sér bók um #metoo-byltinguna þar sem hún greinir frá því að fyrrum forseti Frakklands, Valéry Giscard d´Estaing, hafi þuklað á henni í kvöldverði.

Forsætisráðherrann fyrrverandi greinir frá því í viðtali við Danska ríkisútvarpið, DR, að hún þekki því miður ekki neinar konur sem ekki hafi upplifað að farið hafi verið yfir mörk þeirra í samskiptum. Slíkt eigi sér stað í vinnunni, á djamminu, og jafnt í Danmörku sem og í útlöndum.

Bókin ber titilinn Hugleiðingar ljósku og fjallar um femínisma og #metoo-byltinguna. „Ég vil gjarna segja mína sögu en ég vona auðvitað líka að þetta verði almennara og að við höldum lífi í umræðunni sem hefur skapast í Danmörku. Ég er dálítið hrædd um að hún fjari út, líkt og hún gerði árið 2017,“ hefur Danska ríkisútvarpið eftir Thorning-Schmidt. 

Umræðan fór á flug aftur í Danmörku í fyrra þegar Sofie Linde, þekkt leik- og dagskrárgerðarkona, greindi í opnunarræðu sinni á Zulu Comedy Gala, sem er eins konar uppskeruhátíð danskra uppistandara og grínista, frá kynbundu misrétti og áreitni sem hún hafði verið beitt. Ræðan vakti mikla athygli og fjölmargar konur í fjölmiðlum lýstu yfir stuðningi við frásögnina. Það er sú umræða sem Thorning-Schmidt vill halda gangandi. 

Kynferðisleg áreitni í sendiráði

Í bókinni lýsir Thorning-Schmidt því hvernig Valéry Giscard d´Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands, hafi þuklað læri hennar þegar þau sátu saman til borðs í kvöldverði í sendiráði Frakklands í Danmörku í byrjun aldarinnar þegar hann starfaði fyrir Evrópusambandið. Í viðtali í þættinum 21 Søndag í gær kvaðst hún nokkuð viss um að forsetinn fyrrverandi hafi gert slíkt áður. Þau mál voru mikið í umræðunni í fyrra þegar fjöldi kvenna sakaði hann um kynferðislega áreitni. Lögmaður hans hafnaði þeim ásökunum í viðtali við New York Times. 

Fyrrum Frakklandsforseti lést í desember. Thorning-Schmidt var spurð að því á DR í gær hvort henni fyndist ekki óviðeigandi að greina frá brotum látins manns. „Nei, það finnst mér ekki. Ég jafnaði mig á þessu fyrir mörgum árum, mér tókst það sama dag. Ég komst yfir þetta þannig að þetta er ekki eitthvað sem hefur tekið mikla orku frá mér.“ Frásögn hennar sýni að fólk sýni af sér óviðeigandi hegðun jafnvel á hátíðlegustu viðburðum. Thorning-Schmidt segir jafnframt að viðkvæmt sé að ræða mál sem þessi og að með frásögn sinni vilji hún beina kastljósinu að því að það séu ekki ákveðnir hópar kvenna sem séu beittir áreitni og ofbeldi, heldur allar konur.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir