Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki útilokað að skriðurnar verði fleiri

04.10.2021 - 12:50
Mynd: Veðurstofa Íslands / RÚV
Fallið hafa um fimmtán til tuttugu skriður um helgina í Kinn og Útkinn. Tvær skriður féllu í gærkvöld eða í nótt. Ofanflóðasérfræðingur segir ekki hægt að útiloka að fleiri skriður falli.

Metið verður í dag hvort skriðuhætta sé enn í Kinninni og Útkinn. Úrkoma hefur minnkað í morgun en gert er ráð fyrir að bæti aftur í síðdegis í dag  Ekki er þó áætlað að úrkoman verði eins mikil og þegar verst lét um helgina. 

Enn ekki óhætt að meta ástandið

Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á sviði ofanflóðamats hjá Veðurstofunni, segir að það sjáist nú að tvær nýjar skriður hafi fallið í gærkvöld eða nótt. Hann segir að það sé erfitt að segja hversu margar skriðurnar eru í allt en giskar á um fimmtán til tuttugu. Farið verður inn á svæðið þegar óhætt þykir til að meta ástandið. „Skriðurnar sem hafa fallið eru á svæði sem er um það bil 10 kílómetrar, frá Björgum ysta bænum og inn undir Þóroddsstaði.“

Fylgjast með svæðinu í dagsbirtunni

Nú er liðinn rúmur sólarhringur frá því að versta úrkoman var. Sveinn segir ómögulegt að segja hvort búist sé við fleiri skriðum. „Það er mjög erfitt að segja um það. Í gær lögðum við til þessa auknu rýmingu og það er vegna þess að þá var að byrja að rigna aftur. Þá gerðum við ráð fyrir að það gætu fallið fleiri skriður. Það er ekki hægt að útiloka það enn þá að það falli fleiri skriður,“ segir hann. Dagsbirtan verður nýtt til að fylgjast með svæðinu og meta ástandið.

Rólegt á Ólafsfirði í nótt

Á Ólafsfirði voru engar aðgerðir í nótt vegna vatnsflaumsins sem var í bænum um helgina. Svo virðist sem ástandið sé að skána enda hefur úrkoma minnkað. Áætlað er að það hafi flætt inn í um tuttugu hús. Ekki er unnið að dælingu í dag en gærdagurinn fór mest í að dæla af opnum svæðum til að létta á fráveitukerfinu. Á Siglufirði þurfti ekki að dæla úr húsum eða af götum þrátt fyrir sams konar úrhelli þar.

Almannavarnir og sérfræðingar Veðurstofunnar funduðu í morgun til að meta næstu skref og hittast aftur síðar í dag. Viðlíka skriðuföll hafa ekki fallið á þessum slóðum í byggð frá því að skriður féllu á Ólafsfirði árið 1988. Rýmingu hefur ekki verið aflétt í Kinn og Útkinn. Í nótt féllu skriður í Útkinn og er hættustig enn í gildi á svæðinu. 

Kanna hvernig bændur fá tjón bætt

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit, hefur verið í sambandi við bændur vegna stöðunnar. „Svo voru það Almannavarnir sem tóku þetta yfir og vakta svæðið og skipuleggja og halda utan um þetta,“ sagði hún í viðtali við Ágúst Ólafsson, fréttamann, í hádegisfréttum. 

Verið er að kanna hvernig bændur fá tjón bætt. „Við vitum ekki hvort þetta er einu sinni búið enn þá þannig að við þurfum bara að skoða það og spuring hvort að það sé Bjargráðasjóður eða eitthvað slíkt. Við þurfum bara að ræða það,“ segir hún. Rýmingar eru enn í gildi og eftir er að hreinsa og meta tjón. 

Hún hefur rætt við nokkra þingmenn kjördæmisins um næstu skref, verkefnið sé ærið fram undan.