Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldrei heyrt önnur eins læti og í skriðunum

04.10.2021 - 09:50
Mynd: Landhelgisgæslan / Landhelgisgæslan
Bragi Kárason, bóndi á Nípá, kveðst aldrei hafa heyrt önnur eins læti og í skriðunum um helgina. Mikil úrkoma hefur verið á Norðurlandi eystra um helgina og hafa aurskriður fallið víða. Ástandið er sérstaklega slæmt í Þingeyjarsveit og hafa tólf bæir í Kinn og Útkinn verið rýmdir vegna skriðuhættu, þar á meðal Nípá.

Bragi segir ástandið þokkalegt á Nípá eftir aurskriðurnar, þó sé drulla á flestum túnum. Verst sé ástandið á næsta bæ, Björgum. Rætt var við Braga í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og þá var hann á leið til mjalta og gjafar í fylgd björgunarsveitarmanna.

Bærinn Nípá var rýmdur eftir hádegi í gær. „Þeir flugu með einhverja sérfræðinga að sunnan á þyrlunni og þeir voru voða hræddir og báðu okkur um að fara,“ segir Bragi, sem myndi þó frekar vilja vera heima. „En gerir maður ekki bara það sem manni er sagt?“

Hann segir mikil læti hafi fylgst skriðuföllunum. Heimilisfólkið á Björgum var flutt burt með þyrlu í gær. „Það var eina vitið fyrir þau. Ég hef bara aldrei á ævinni heyrt önnur eins læti og þegar það hrundi stanslaust hjá þeim.“ Um tveir kílómetrar eru milli bæjanna og segir Bragi að frá Nípá og að Björgum sé mikið af skriðum. „Bjargafjallið sérstaklega er bara runnið niður og það eru þrjár eða fjórar minni skriður á okkar landi og svo þegar þú kemur niður Bjargalandið það er bara að verða ein skriða alveg að norður að húsum.“

Hægt er að hluta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.