Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýliðarnir upp í sjöunda sæti eftir sigur á West Ham

Mynd með færslu
 Mynd: Brentford FC - Twitter

Nýliðarnir upp í sjöunda sæti eftir sigur á West Ham

03.10.2021 - 15:28
Nýliðar Brentford eru komnir í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á West Ham í dag. Liðið hefur unnið þrjá leiki á tímabilinu, gert þrjú jafntefli og aðeins tapað einum leik.

Byran Mbeumo skoraði fyrsta mark Brentford á 20. mínútu leiksins og það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem West Ham-menn náðu að jafna með marki frá Jarrod Bowen. Allt leit út fyrir að liðin þyrftu að sætta sig við að deila stigunum í dag en á síðustu mínútu í uppbótatíma í síðustu spyrnu leiksins tókst Yoane Wissa að koma boltanum í netið fyrir Brentford eftir að boltinn barst til hans frá Lukasz Fabianski í marki West Ham og Wissa tryggði þar með nýliðunum öll þrjú stigin. 

Tottenham þurfti nauðsynleg á sigri að halda í dag en liðið hefur tapað síðustu þremur leikjum í úrvalsdeildinni. Liðið mætti Aston Villa í dag. Pierre-Emile Höjbjerg kom Tottenham yfir á 27. mínútu eftir stoðsendingu frá Son. Ollie Watkins jafnaði fyrir Aston Villa á 67. mínútu en örstuttu síðar átti Lucas Moura skot á markið sem fór af Matt Targett, varnarmanni Villa, og í markið. 2-1 reyndust lokatölur og Tottenham situr nú í 8. sæti deildarinnar. 

Í þriðja leik dagsins gerðu Crystal Palace og Leicester svo 2-2 jafntefli en liðin eru í 13. og 14. sæti deildarinnar. Síðasti leikur umferðarinnar er stórleikur Manchester City og Liverpool en hann hefst klukkan 15:30.