Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Starfsfólk Play leitar til ASÍ vegna aðbúnaðar

01.10.2021 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Starfsfólk flugfélagsins Play hefur ítrekað leitað til Alþýðusambands Íslands og kvartað undan slæmum aðbúnaði. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Þora ekki að koma fram undir nafni

„Það sem við höfum gert er að eiga trúnaðarsamtal við fólk. Staðan er í raun þannig að fólk þorir ekki að koma fram undir nafni af ótta við að missa vinnuna, þannig að við förum með þetta sem trúnaðarmál. En það sem við getum upplýst almennt er að við höfum fengið bréf þar sem stöðunni er lýst, og hún er alvarleg,“ segir Drífa.

Hún segir áhyggjur starfsfólksins snúa að ýmsum atriðum: „Fólk hefur ekki endilega aðgang að kjarasamningum og það veit ekki hvaða kjör þeim bjóðast fyrr en það hefur fengið launaseðla. Og svo ýmislegt annað sem kemur upp á eins og óskir um kjaraskerðingu og starfskjaraskerðingu,“ segir Drífa.

Segir frumkvæði að lækkun starfshlutfalls ekki starfsfólks

Sagði Drífa Snædal. Nærtækasta dæmið sé þegar starfsfólk var beðið um að taka á sig skerðingu á starfshlutfalli, gegn því að fá fastráðningu. Stjórnendur Play báru það fyrir sig að starfsfólkið hefði sjálft haft frumkvæði að því, til þess að hægt væri að tryggja fleirum fastráðningu. 

„En það var ekki rétt samkvæmt mínum heimildum, að þetta hafi verið að frumkvæði starfsfólks að skera starfshlutfallið sitt í tvennt, eins og var látið að liggja,“ segir Drífa.

Augljós áhrif á kjaraviðræður við SA

Drífa segir ljóst að framganga Play hafi áhrif á kjaraviðræður á næsta ári. „Við lítum náttúrulega á þetta sem aðför að launafólki á öllum vinnumarkaði, þegar eitt stórt fyrirtæki semur við það, sem við getum ekki litið á sem óháð stéttarfélag. Okkur ber skylda til að upplýsa um þetta, almenning og fjárfesta, á hvaða grunni þetta flugfélag er rekið. Svo mun þetta að sjálfsögðu lita öll okkar samskipti og kjaraviðræður fram undan. Við skulum hafa í huga að Play er hluti af Samtökum atvinnulífsins. Þannig að þetta mun lita viðræður á næsta ári mjög hressilega,“ segir Drífa að lokum. 

Flugfélagið samdi við Íslenska flugrekstrarfélagið, sem Alþýðusamband Íslands skilgreinir sem gult stéttarfélag og segir ljóst að sé ekki óháð fyrirtækinu. ASÍ hefur ítrekað sagt samninginn ekki hafa verið gerðan á réttum grunni. Flugfreyjufélagið, sem hefur aðild að ASÍ, hefur boðið Play til kjaraviðræðna og sóst eftir milligöngu ríkissáttasemjara í því. Því var svo lýst yfir fyrir rúmum mánuði að viðræðurnar hefðu ekki borið árangur. Drífa segir Play þar með ekki hafa gripið tækifærið til að ganga til raunverulegra kjarasamninga.