Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kventónskáld mótuð af fjandsamlegu umhverfi

Mynd: Rás 1 / RÚV

Kventónskáld mótuð af fjandsamlegu umhverfi

01.10.2021 - 09:24

Höfundar

Árni Heimir Ingólfsson stýrir nýjum þætti um konur sem höfðu metnað til tónsmíða en mættu hindrunum og fordómum. „Feðraveldið ákvað að konur væru ómöguleg tónskáld og það hafi hentað þeim illa að semja tónlist,“ segir hann.

Þættirnir heita Kventónskáld í karlaveldi og hefja göngu sína á Rás 1 á sunnudag. Í þeim er fjallað um tíu konur sem stunduðu tónsmíðar og náðu langt í list sinni þótt engin þeirra væri metin að verðleikum á sinni tíð. Tónlist sem hefur legið í gleymsku, svo áratugum skiptir, fær þar að hljóma.

„Eitt af því ánægjulegasta í klassíska tónlistarheiminum undanfarin ár er þessi mikli uppgangur kventónskálda,“ segir Árni Heimir Ingólfsson í samtali við Guðna Tómasson í Víðsjá á Rás 1. „Við erum að uppgötva tónlistarsöguna upp á nýtt frá þessu sjónarhorni. Hljómsveitir hafa verið að flytja verk þeirra og upptökur eru nú aðgengilegar. Loksins er maður farinn að geta gert sér heildarmynd af ævi og starfi þessara kvenna sem höfðu áður legið í gleymsku.“

Þegar ég var kominn út
í miðja laug áttaði ég mig
á því hversu stórt verkefni
þetta í reynd er og af hverju
það eru ekki fleiri rugludallar
í heiminum sem leggja út
í svona verk.“
Árni Heimir Ingólfsson.

Þættirnir hafa kallað á mikla rannsóknarvinnu. Þó þar sé fjallað um tónskáld sem voru kunn Árna Heimi fyrir. Líkt og Fanny Mendelssohn og Clara Schumann, voru hin tónskáldin ný fyrir honum. „Það hefði í rauninni ekki verið hægt að gera svona þátt fyrir 10 árum,“ segir hann. „Rannsóknirnar voru ekki til og ævisögurnar eru fyrst að koma út núna á síðustu árum. Stór hluti af upptökunum í þættinum kom hreinlega út á síðustu tveimur árum.“ Það muni einnig um það að nú séu fyrsta flokks tónlistarmenn loksins að taka tónlist þeirra upp á arma sína.

Það eru mörg dæmi um konur sem börðust fyrir því að komast að og ná tali, segir Árni Heimir. Sumum tókst það, en þar hafi stuðningur og bakland skipt máli.

„Fanny Mendelssohn er til dæmis kona sem var alla ævi að berjast við karla í sínu nánasta umhverfi. Faðir hennar og bróðir voru alla tíð á móti því að hún gæfi út verkin sín. Þeir vildu að hún væri á sínu heimili, lokuð þar inni og semdi bara eða spilaði fyrir sjálfa sig. Það er ekki fyrr en ári áður en hún deyr sem hún fær leyfi frá bróður sínum til að gefa út tónlistina sína. Ef hún hefði ekki dáið svona snemma, þá hefði seinni hluti af hennar ævi mögulega orðið glæsileg tónsmíðasaga.“

Hann segir að mismunun kvenna á þessu sviði hafi verið kerfisbundin. „Það verður til ákveðinn vítahringur, hugsana og tækifæra. Feðraveldið ákveður að konur séu ómöguleg tónskáld og það henti þeim illa að semja tónlist. Ekki síst stór tónverk eins og sónötur, sinfóníur eða óperur. Út frá því, þá fá konur ekki að stunda tónsmíðanám í háskólum. Þær eru útilokaðar eða hafa mjög takmarkaða möguleika til að sækja sér æðra tónlistarnám. Þær komast yfirleitt í píanóbekkina en í stærstu tónlistarháskólum voru sérstakir bekkir fyrir konur og aðrir fyrir karla. Þau voru líka látin æfa ólík verk. Svo fá þær hreinlega ekki aðgang að tónsmíðabekkjunum, þannig að þær eru aldrei á jöfnum grunni eða með jöfn tækifæri. Þetta er kerfisbundið frá upphafi. Það er ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem þær hafa sömu möguleika á menntun og karlarnir.“

Þættirnir hefja göngu sína á Rás 1 klukkan 18:10 á sunnudag, 3. október. Þeim fylgir systurþáttur, sérstaklega helgaður tónlist kvennanna, sem fluttur er samdægurs klukkan 22:10.

Kventónskáld í karlaveldi er tíu þátta röð um tónskáld í Evrópu og Bandaríkjunum á 19. öld og við upphaf 20. aldar. Konur á 19. öld sem höfðu metnað til tónsmíða mættu ýmsum hindrunum og fordómum; þær fengu hvergi að stunda háskólanám í faginu og höfðu takmörkuð tækifæri til að fá verk sín flutt. Í þáttaröðinni verður fjallað um tíu konur sem stunduðu tónsmíðar og náðu langt í list sinni þótt engin þeirra væri metin að verðleikum á sinni tíð. Þrjár þeirra voru frá Þýskalandi, fjórar frá Frakklandi, ein frá Englandi, ein frá Króatíu og ein frá Bandaríkjunum. Einnig verða leiknir kaflar úr verkum þeirra, sem hafa á undanförnum árum loks hljómað á ný eftir að hafa legið í gleymsku svo áratugum skiptir.