Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atlanta tekur sjö nýjar flutningavélar í notkun

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Kveikur - RÚV
Eftirspurn eftir fraktflugi hefur aukist mjög samhliða samdrætti í farþegaflugi. Flugfélagið Atlanta bætir á næstu mánuðum sjö nýjum Boeing og Airbus flutningaþotum í flota sinn en þegar hefur það á níu þotum að skipa.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem haft er eftir Baldvini Hermannssyni forstjóra félagsins að flutningsgetu vanti í kerfið ekki síst með breiðþotum sem flogið geti heimsálfa á milli.

Baldvin segir að eftir mjög erfiða tíma eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á með fækkun flugvéla í kjölfarið hafi eftirspurn stöðugt aukist undanfarið ár. Nú segir hann félagið eingöngu fljúga með vörur en áður fyrr hafi 65 til 70% tekna verið af farþegaflugi.

Baldvin kveðst vonast til að Atlanta verði með sextán þotur sem fljúgi heimshorna á milli í febrúar en fyrir faraldur hafi þær verið fimmtán. Um hundrað flugmenn starfa nú hjá félaginu en nýting nýju vélanna ráði hversu margir verið ráðnir í áhafnir þeirra.