Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telur líklegt að TikTok-stjarna gefist upp á refnum

30.09.2021 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Phil Garcia - Náttúrufræðistofnun Íslands
Dýraþjónusta Reykjavíkur, sem heldur utan um málefni dýra og dýrahald í landi Reykjavíkur, skorar á samfélagsmiðlastjörnuna Ágúst Beintein Árnason að afhenda yrðling sem hann hefur haldið sem gæludýr. Þetta kemur fram í færslu sem þjónustan birti á Facebook-síðu sinni. Þar segir enn fremur að þetta sé lögbrot „enda refir villt dýr sem ekki má halda án sérstaks leyfis.“

Fram kom í frétt á visir.is í morgun að Matvælastofnun hefði gert tilraun til að innheimta refinn og fara með hann í Húsdýragarðinn sem Ágúst Beinteinn tók ekki til greina. „„Þetta var allt frekar súrrealískt. MAST talaði eitthvað um Húsdýragarðinn en ég held að það sé ekkert fyrir ref eins og Gústa,“ hafði vefurinn eftir Ágústi sem er einnig plötusnúður.

Dýraþjónusta Reykjavíkur hefur nú blandað sér í málið og segir á Facebook-síðu sinni að refurinn hans Ágústs sé yrðlingur frá því í vor og sé því enn frekar krúttlegur og þokkalega lyktandi. „Þetta mun að sjálfsögðu breytast á næstu mánuðum þegar dýrið nær kynþroska. Á þeim tímapunkti mun rebbi einnig taka að ókyrrast í haldi.“

Hún spáir því að eflaust komi síðan að þeim tímapunkti að Ágúst gefist upp á sambúðinni og hann þurfi að aflífa. „Kannski verður fólk þá búið að missa áhuga á refnum og „lækum“ og „views“ farið að fækka.“

Dýraþjónustan bendir á að Ágúst sé ekki einn um að taka til sín yrðling því Húsdýragarðurinn hafi tekið á móti ófáum slíkum refum sem fæstir eigi afturkvæmt í náttúruna. „Dýraþjónusta Reykjavíkur skorar því á Ágúst að afhenda refinn til okkar í Húsdýragarðinn og við munum gera okkar besta til þess að finna honum ásættanlegan samastað. Þetta er það skásta í stöðunni úr því sem komið er.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV