Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Samkomulag veikti stjórn Afganistan en styrkti Talibana

epa09493365 Defense Secretary Lloyd Austin (R) speaks during a Senate Armed Services Committee hearing on the conclusion of military operations in Afghanistan and plans for future counterterrorism operations, on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 28 September 2021.  EPA-EFE/Patrick Semansky / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Varnarmálaráðherra og yfirmenn herafla Bandaríkjanna segja samkomulag við Talibana um brottflutning Bandaríkjahers frá Afganistan hafa veikt ríkisstjórn landsins og her. Á hinn bóginn hafi máttur Talibana færst í aukana.

Kenneth McKenzie, yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Afganistan segir að samkomulag við Talibana um brottflutning allra hermanna úr landinu hafi skaðað ríkisstjórn þess og her. Þá hafi þeim orðið ljóst að engrar hjálpar væri að vænta áfram.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra tekur undir það og segir samninginn jafnframt hafa aukið styrk Talibana. Þeir hefðu færst í aukana eftir að þeim varð ljóst að ekki stafaði lengur ógn af loftárásum Bandaríkjamanna. Þá hafi þeir tekið að herða sókn sína gegn stjórnarhernum.

McKenzie kveðst hafa verið þess fullviss að ríkisstjórnin og herinn féllu færi fjöldi bandarískra hernaðarsérfræðinga undir 2.500. Mark Milley, yfirmaður Herforingjaráðs Bandaríkjanna, kveðst óttast að eftir valdatöku Talibana verði erfiðara að verjast hryðjuverkaárásum frá Afganistan.

Þetta kom fram í máli þeirra frammi fyrir hermálanefnd Bandaríkjaþings. Ætlunin er að grafast fyrir um að hvernig staðið var að brotthvarfi Bandaríkjahers frá Afganistan og ástæðum þeirrar upplausnar sem ríkti síðustu dagana áður en hann hvarf á braut.

Sjálfsmorðsárás varð 182 að bana þegar leið að lokum brottflutningsins. Samkvæmt samkomulaginu var Talibönum gert að tryggja að hryðjuverkasamtök á borð við Al Kaída ógnuðu ekki öryggi Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra.  

Zabihullah Mujahid, talsmaður Talibana, fullyrðir í samtali við breska ríkisúvarpið að engum standi ógn af Afganistan. Þeir muni virða samkomulagið við Bandaríkin.

Samkomulagið var undirritað í febrúar 2020 í Doha höfuðborg Katar meðan Donald Trump var enn forseti en Joe Biden arftaki hans ákvað að virða það. Þó var ákveðið að fresta brotthvarfi alls herliðs Bandaríkjanna frá Afganistan fyrir til 31. ágúst 2021 í stað maí líkt og samkomulagið gerði ráð fyrir.