„Lögreglan kemur alveg dýróð og einn var æstastur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Lögreglan kemur alveg dýróð og einn var æstastur“

30.09.2021 - 13:24

Höfundar

Valgeir Guðjónsson fékk að dúsa í fangaklefa í nokkurn tíma eftir óvænta uppákomu að loknum tónleikum í Laugardalshöll árið 1978. Frakkinn hans var rifinn þegar þeir Páll Baldvinsson voru handsamaðir og þeim troðið inn í lögreglubíl.

Valgeir Guðjónsson Stuðmaður, Hrekkjusvín og meðlimur Spilverksins er fyrsti gestur Tónatals í haust en þátturinn hefur göngu sína aftur í kvöld. Hann segir frá skrautlegum en glæstum ferli og leikur nokkur af vinsælustu lögum sínum fyrir áhorfendur í bland við nýjar ábreiður. Hann rifjar það meðal annars upp þegar hann fór á Stranglers tónleika í Laugardalshöll ásamt eiginkonu sinni, Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur, Páli Baldvinssyni vini sínum og konu hans. Sú reynsla endaði ekki eins og áætlað var.

Brjóta rúður og komast inn í húsið

„Við fórum með frýrnar okkar á tónleikana og svo fannst okkur orðið ágætt,“ rifjar hann upp. Hljómsveitin var flott og tónleikarnir hinir ánægjulegustu en þegar þeim var að ljúka ákváðu félagarnir að halda heim. Í þann mund sem þau eru að yfirgefa höllina kemur aðvífandi stór hópur unglinga, „brýtur rúður og kemst inn í húsið. Lögreglan kemur þarna alveg dýróð gersamlega og einn var æstastur, það var varðstjórinn.“ Sá rauk á þá Valgeir og Pál, sem varð afar brugðið. „Við stöndum þarna og verðum eins og dádýr í bílljósi. Þessi maður er rosalegur,“ segir Valgeir.

„Ég verð að fá bíllyklana“

Félagarnir eru handsamaðir og ekkert hlustað þó þeir reyni að mótmæla handtökunni. „Ég var í frakka, ansi fínum, og hann tók svo hart á mér að frakkinn rifnaði næstum fram á olnboga. Okkur var hent í lögreglubíl og þar sitjum við við hliðina á manni sem var nýbúið að taka fyrir nauðgun,“ rifjar hann upp.

Ásta Kristín gengur upp að bílnum til að ræða við mann sinn, því henni er umhugað um að komast sjálf klakklaust heim þó hann sé ekki svo heppinn að komast neitt í bili. „Hún segir: Heyrðu, ég verð að fá bíllyklana. Þá kom spurning frá varðstjóranum: Var hann fullur?“

Valgeir segir að svo hafi ekki verið en að þeir félagar hafi verið keyrðir niður á lögreglustöð þar sem þeir máttu dúsa í fangaklefa í einn og hálfan tíma. Þegar þeim var sleppt lausum samdi Valgeir lagið: Ég held ég gangi heim.

Tónatal er á dagskrá í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.