Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fylgi lýðhyggjuflokka dalar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Krafa um stöðugleika og sömu ríkisstjórn áfram, togast í einhverju á við óánægju fylgismanna Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð í samtali ríkisstjórnarflokkanna nú segir Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann ber saman kosningarnar á Íslandi og Þýskalandi og segir að flug popúliskra flokka hafi lækkað.

Varla er hægt að túlka kosningarnar öðruvísi en að fólk vilji stöðugleika og hverfa frá óvissuástandi sem ríkti frá 2013 þar sem ríkisstjórnir náðu ekki að sitja út kjörtímabil segiri Guðmundur en bendir um leið á að í fylgistapi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs felist ákveðin skilaboð.

Því það er alveg greinilegt að þar er einhver óánægja. Það eru svona þessi tvenn skilaboð sem flokkarnir eru að vinna úr í sínu samtali sem hófst strax að kosningunum loknum. 

Guðmundur segir úr ýmsu sé að leysa áður en ljóst verður, og staðfest, að ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldi áfram. Ekki síst hvort eðlilegt sé að VG sem missti þingstyrk haldi forsætisráðuneytinu og þá hvort umhverfisráðuneyti eða heilbrigðisráðuneytinu verði sleppt. Það þýddi auðvitað minni málefnaleg áhrif í ríkisstjórninni, þar sem fyrir sé ágreiningur í stjórninni til dæmis um heilbrigðismálin. Frá því kosið var hefur verið nokkuð uppnám í tengslum við endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi og áhrif nokkurra atkvæða sem þar fluttust til á skipan jöfnunarsæta. Guðmundur telur að slíkt mál auðvitað geta dregið úr trausti fólks á stjórnmálunum. 

Fólki finnst þetta svolítið skrýtið. Varðandi þessa hringekju, hún hefur auðvitað verið að gerast en hefur bara yfirleitt gerst yfir kosninganóttina. Þingmenn eru að detta inn og út og þetta hefur verið ákveðinn samkvæmisleikur á kosninganótt. En þegar búið er að gefa þetta út er þetta frekar óheppilegt. Ég verða að segja það, en ég sé í sjálfu sér ekki aðra lausn en að sætta sig við þetta. Þetta breytti engu um fylgi einstakra flokka og hlutföll þeirra, þetta breytti hins vegar því hverjir fóru inn og það fannst mörgum sárt. En ákall um að kjósa aftur finnst mér ekki geta gengið. Kosningar mæla ákveðið augnablik og það er ekki hægt að kjósa bara í einu kjördæmi þegar niðurstöður í fimm kjördæmum liggja fyrir, það fyndist mér mjög sérkennilegt. 

Lýðhyggja eða populismi og uppgangur þeirrar stefnu hefur verið Guðmundi hugleikinn undanfarin ár. Í nýafstöðnum kosningum í Þýskalandi dalaði fylgi Alternative für Deutschland, sem talinn er öfgaflokkur til hægri nokkuð þó að flokkurinn héldi eða jafnvel styrkti stöðu sína í austurhluta landsins. Vinstri-flokkurinn Die Linke sem líka hefur verið kenndur við lýðhyggju missti fylgi. Guðmundur segir að það sé ekki auðvelt að máta íslenska flokka við þessa þýsku flokka og þeir kæri sig heldur ekki um það. Þó megi greina vissa drætti í málflutning sumra þeirra. Hann bendir um leið á að þjóðernishyggja eða þjóðrækni sé miklu ríkari hjá íslenskum stjórnmálaflokkum en þýskum og hafi af sögulegum ástæðum ekki sama blæ. Stjórnmál séu alltaf staðbundin.