Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja tryggja að fasteignamarkaðurinn sé í jarðsambandi

29.09.2021 - 12:22
ásgeir jónsson seðlabankastjóri eftir vaxtaákvörðunarfund 25. ágúst
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Seðlabankastjóri segir ákveðin merki um að fasteignamarkaðinn sé að leita í sömu átt og fyrir hrun. Hann segir að breytingar á greiðslubyrðarhlutfalli fasteignalána séu leið til að halda fasteignamarkaðnum í jarðsambandi.

Vegna hækkandi fasteignaverðs og aukinnar skuldsetningar heimila hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að setja reglur um hámark greiðslubyrðar, þannig að greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána skuli almennt takmarkast við 35 prósent og 40 prósent fyrir fyrstu kaupendur. Þetta kom fram á fundi fjármálastöðuleikanefndar í morgun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að fólk yfirbjóði hvort annað og sé að taka of mikla fjárhagslega áhættu.

„Í rauninni það sem við erum að gera er að tryggja það að fasteignamarkaðurinn hafi jarðsamband í þessu landi. Það sem stendur undir greiðslum af húsnæði eru tekjurnar sem fólk vinnur sér fyrir. Það sem við megum ekki sjá er að fasteignamarkaðurinn fari eitthvað hátt á loft og venjulegt fólk reyni að elta hann. Það er það sem gerðist á árunum fyrir hrun og við viljum ekki sjá það aftur,“ segir Ásgeir og segist hafa vissar áhyggjur af því að þróunin gæti verið að leita í þá átt núna og um það séu ýmis teikn á lofti.

„Hlutir eins og það hvað meðalsölutími hefur styst, lítið framboð og lítill meðalsölutími. Líka það hvað íbúðir eru að fara yfir ásettu verði sem bendir til þess að það er að myndast ákveðin örvænting á markaðnum og þarna. Þetta eru viðmið til lengri tíma þetta er ekki eitthvað sem við tökum aftur af, við erum að reyna að tryggja jafnvægi á markaðnum með þessu,“ segir Ásgeir að lokum.

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir