Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ronaldo bætti met og skoraði dramatískt sigurmark

epa09496432 Cristiano Ronaldo of Manchester United celebrates after scoring during the UEFA Champions League group F soccer match between Manchester United and Villarreal CF in Manchester, Britain, 29 September 2021.  EPA-EFE/Peter Powell
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ronaldo bætti met og skoraði dramatískt sigurmark

29.09.2021 - 21:04
Christiano Ronaldo varð í dag sá leikmaður sem hefur spilað flesta leiki í Meistaradeild Evrópu þegar hann spilaði sinn 178. leik í keppninni. Ekki nóg með það þá skoraði hann dramatískt sigurmark United á lokamínútum leiksins.

Manchester United þurfti að bæta upp fyrir tap sit gegn Young Boys í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar en liðið fékk Villareal í heimsókn á Old Trafford í kvöld. Liðin mættust síðast í úrslitum Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð í leik sem United menn vilja líklega gleyma en þar hafði Villareal betur í vítaspyrnukeppni.

Það var líka Villareal sem byrjaði betur í leik kvöldsins og eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Paco Alcácer fyrir spænska liðið á 53. mínútu. 7 mínútum seinna jafnaði Alex Telles fyrir United með viðstöðulausu skoti eftir aukaspyrnu frá Bruno Fernandes. Í síðustu sókn leiksins þegar allt leit út fyrir að leiknum myndi ljúka með jafntefli endaði fyrirgjöf Fred hjá Jesse Lingard sem kom boltanum á Ronaldo og hann skoraði. Lokatölur 2-1 og United sótti mikilvæg þrjú stig. Liðið er nú með jafn mörg stig og Young Boys og einu stigi minna en Atalanta sem er á toppi F-riðils með fjögur stig. 

Brösulega hefur gengið hjá Börsungum undanfarið og brasið hélt áfram strax í upphafi leiks gegn Benfica í kvöld. Á 3. mínútu fékk Darwin Núnes boltann frá Julian Weigl og kom honum fram hjá Marc-André ter Stegen í marki Barelona, 1-0. Á 69. mínútu féll boltinn fyrir Rafa Silva sem afgreiddi hann í netið og kom stöðunni í 2-0. Á 78. mínútu fékk Benfica svo vítaspyrnu eftir að boltinn fór í höndina á Sergino Dest inni í vítateig. Darwin Nunes skoraði sitt annað mark á punktinum og 3-0 lokatölur. Til að bæta gráu ofan á svart fékk Eric García, leikmaður Barcelona sitt annað gula spjald rétt fyrir lok leiks og þar með rautt. Barcelona situr á botni E-riðils með núll stig eftir tvo leiki. Pressan er því orðin mikil á knattspyrnustjóra liðsins, Ronald Koeman, en Barcelona hefur ekki misst af útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar frá árinu 2001. 

Í hinum leiknum í E-riðli fór Bayern München auðveldlega með að vinna Dynamo Kyiv, 5-0. Robert Lewandowski skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 12. mínútu og bætti svo öðru marki við eftir tæplega hálftíma leik. Serge Gnabry, Leroy Sané og Eric Maxim Choupo- Moting bættu svo við marki hver í seinni hálfleik og Bayern er á toppi riðilsins með fullt hús stiga.

Í öðrum leikjum kvöldsins lutu Evrópumeistarar Chelsea í lægra haldi fyrir Juventus en það var Federico Chiesa sem skoraði eina mark leiksins. Þá hafði Salzburg betur gegn Lille, 2-1 og Wolfsburg og  Sevilla gerðu 1-1 jafntefli.  Fyrr í dag vann Zenit svo góðan 4-0 sigur á Malmö og Atalanta bar sigur úr býtum gegn Young Boys frá Sviss. Næst verður spilað í Meistaradeildinni 19. október.