Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kemur til greina að kalla Alþingi fyrr saman

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Starfandi forseti Alþingis segir að til greina komi að kalla þing saman áður en ríkisstjórn hefur verið mynduð til að skera úr um lögmæti kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi. Fyrrum formaður nefndarinnar segir að það þurfi að vera veigamikill galli á framkvæmdinni til að kosið verði aftur í kjördæminu

Eins og þekkt er orðið ákvað yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi að endurtelja atkvæði alþingiskosninganna með þeim afleiðingum að fimm nýkjörnir þingmenn duttu út af þingi og aðrir fimm náðu þar með kjöri. Kjörkassar voru ekki innsiglaðir og formaður landskjörstjórnar sagði í gær að ekki hafi borist staðfesting á því að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi í kjördæminu.

„Þetta er auðvitað alvarlegt mál og alvarlegt mál fyrir okkur öll því að trúverðugleiki kosninga er lýðræðinu mikilvægur. En lagaramminn, bæði stjórnarskráin, kosningalögin og þingsköpin, gerir ráð fyrir því að Alþingi rannsaki þetta og staðfesti og við sinnum því hlutverki. Og tökum það mjög alvarlega,“ segir Willum Þór Þórsson, stafandi forseti Alþingis.

Til útskýringar er málsmeðferðin svona:

Hlutverk landskjörstjórnar er að fara yfir framkvæmd kosninga í einstökum kjördæmum og gefa út kjörbréf handa nýkjörnum þingmönnum og kynna nöfn þeirra í Stjórnartíðindum. Samkvæmt landskjörstjórn voru ágallar í meðferð kjörgagna í Norðvestur. Hún ætlar því að flýta úthlutunarfundi sínum til föstudags, þá verður kjörbréfum úthlutað og málið formlega komið til Alþingis. 

Þá óskar þingforseti eftir tilnefningu frá þingflokksformönnum um fulltrúa í kjörbréfanefnd til bráðabirgða sem undirbýr rannsókn og fer yfir ágreiningsmál ef einhver eru. Willum er þegar búinn að heyra í þingflokksformönnum til að nefndin geti hafið störf strax. „Og afla gagna þegar. Og mögulega um helgina. Ég reikna með að við náum að klára málið þannig að nefndin geti komið saman á fyrsta fundi á mánudag,“ segir Willum.

Á þingsetningardegi er kjörbréfanefndin kosin formlega, hlé er gert á þingfundi á meðan hún fer yfir álit sitt og undirritar. Það er svo lagt fyrir á þingfundi sem greiðir atkvæði um það hvort samþykkja eigi útgefin kjörbréf og hvort kosningarnar teljist gildar. 

Kemur til greina að kalla þingið fyrr saman? „Já, það kemur til greina en nú er það svo að það er verið að reyna að mynda ríkisstjórn og venjulega er þetta tekið fyrir á þingsetningarfundi,“ segir Willum.

„Kjörbréfanefndin þarf að vanda til verka. Það þarf að skoða eins og ég segi lagaatriði og málavexti í sambandi við þau atriði sem eru umdeild. Og það er út af fyrir sig erfitt að segja hvað nákvæmlega sú vinna tekur langan tíma. Það væri hægt að kalla þingið saman til að koma þessum hlutum á hreint en að öðrum kosti er þing ekki kallað saman fyrr en ríkisstjórn hefur verið mynduð,“ segir Birgir Ármannsson, síðasti formaður kjörbréfanefndar.

Niðurstaðan gæti haft áhrif á þingsæti

Birgir segir að Kjörbréfanefndinni hafi áður borist kærumál, bæði út af einstökum atkvæðum og framkvæmd kosninga. „Þetta er kannski nýtt að því leyti að þarna virðist manni að niðurstaðan í kærumálum sem eru boðuð í þessu efni geti haft meiri áhrif á úthlutun þingsæta en við erum vön.“

Viðkvæmt að jöfnunarþingmenn séu í nefndinni

Er eðlilegt að þingmenn séu að ákveða sín eigin örlög? „Það er von að spurt sé, svona eru lögin og stjórnarskráin, við verðum bara að fylgja því. Ég held að það sé ekki hyggilegt að til dæmis úr Norðvesturkjördæmi séu ekki nefndarmenn, úr því kjördæmi. Svo getur verið viðkvæmt mál að þeir sem eru jöfnunarþingmenn séu í þessari nefnd, því við þurfum að gæta að hlutlægni í störfum nefndarinnar.“

Kosningalögin gera ráð fyrir því að það geti komið til uppkosningar í einu kjördæmi ef þingið staðfestir ekki kjörbréfin. „Til þess þarf ýmislegt að koma til, það þarf að vera um að ræða veigamikla galla á framkvæmdinni, það þarf að hafa raunveruleg áhrif á úrslit kosninganna. Þannig að það er fræðilega alla vega möguleiki en það er ótímabært að boða til þeirra kosninga nú þegar,“ segir Birgir.