Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 37 ferðamenn fluttir á hótel eftir að rúta fór út af

28.09.2021 - 14:15
Mynd með færslu
Norðurárdalur. Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Rúta með á fjórða tug ferðamanna innanborðs fauk út af veginum við Heggstaðanessafleggjara í Hrútafirði á tólfta tímanum í dag. Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir að ferðamennirnir hafi verið fluttir á hótel í nágrenninu.

„Veðurskilyrði eru fremur slæm. Það er blint og talsverð úrkoma. Það sem gerðist held ég var í raun það að ökumaður missti stjórn á bifreiðinni og ók svona að hálfu út af veginum. Það voru 37 farþegar í rútunni en það var engum meint af. Farþegum var einfaldlega komið í skjól og rútan er ennþá á sama stað. Það hefur ekki reynst unnt að fjarlægja hana vegna aðstæðna,“ segir Birgir.

Aftakaveður er nú á norðvestanverðu landinu og appelsínugul veðurviðvörun í gildi. Birgir brýnir fyrir fólki að vera ekki á ferðinni að óþörfu. „Það er í rauninni ekkert ferðaveður,“ segir hann.

Birgir segir að björgunarsveitir hafi hjálpað lögreglu með um tuttugu verkefni í umdæminu það sem af er degi. „Eitthvað hefur verið um það að munir hafi verið að fjúka en ekkert stóralvarlegt. Aðallega hefur þetta verið aðstoð við vegfarendur sem hafa verið í vandræðum vegna færðar,“ segir hann.

Þá segir hann að önnur rúta með níu manns innanborðs hafi farið út af vegi í umdæminu. „Það var heldur engum meint af þar. Það er búið að afgreiða það verkefni eins og unnt er á þessu stigi,“ segir Birgir.