Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hundrað skjálftar suður af Keili síðasta sólarhringinn

28.09.2021 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjálfta-Lísa
Um hundrað skjálftar hafa mælst um það bil 1-1,5 km suður af Keili á síðasta sólarhringnum. Skjálftahrinan hófst í gær en kraftur færðist í hana undir morgun. Tveir stærstu skjálftarnir hafa mælst 2,5, annar í gærkvöldi og hinn rétt fyrir klukkan sjö í morgun.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki hægt að útiloka að kvika sé að brjóta sér leið á nýjum slóðum, nú þegar hlé hefur verið á gosinu frá 18. september. Þó sjáist engar breytingar í aflögunargögnum eða merki um óróa.

Skjálftarnir séu á þokkalegu dýpi, um 6-7 kílómetra dýpi. „Ef þeir væru grunnir gæti það verið merki um að kvika væri komin nálægt yfirborði,“ segir Elísabet. Þetta sé þó sambærilegt því sem gerðist áður en eldgosið við Fagradalsfjall hófst. Skjálftarnir eiga rætur um það bil sjö kílómetra frá gígnum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV