Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grundvallaratriði að unnt sé að treysta kosningum

28.09.2021 - 19:10
Formaður Flokks fólksins vonar að leiðrétting vegna talningar í Norðvesturkjördæmi verði farsæl og fagnar því að endurtalning sé trúverðug í Suðurkjördæmi. Formaður Samfylkingarinnar segir atvik sem þessi vond á marga vegu og setji fjölda fólks í óþægilega stöðu. 

Inga Sæland formaður Flokks fólksins segir sögulegt og stórfurðulegt að mál hafi farið á þennan veg í Norðvesturkjördæmi við talningu atkvæða.

„Þetta er náttúrulega sögulegt, það er alveg ljóst og þetta er náttúrulega bara stórfurðulegt ef ég á að segja þér alveg eins og er. Ég botna hvorki upp né niður, þannig að ég spyr nú bara að leikslokum. Þetta er afskaplega óheppilegt og svo kemur í ljós í Norðvesturkjördæmi að gögnin skuli ekki vera innsigluð. En á móti kemur, að mér skilst, að þarna hafi verið læst og það voru myndavélar þannig að það hefði ekki átt að vera hægt að ganga þarna um að einu eða neinu leyti. Þannig að en ég átta mig ekki á hvernig hægt er að klúðra málum svona algjörlega við talninguna. Mér finnst það áfellisdómur ég verð að segja eins og er."

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir þetta vont á marga vegu.

„Í fyrsta lagi er náttúrulega grundvallaratriði að fólk geti treyst lýðræðislegum kosningum það er svona hornsteinn okkar. Þannig að það er mjög brýnt að taka á þessu svo að þetta gerist ekki aftur. Svo er þetta að setja fjölda manna í mjög óþægilega stöðu, sem er óboðlegt."

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur enn ekki komið saman meðal annars vegna þeirrar óvissu sem upp er komin eftir kosningar. 
Þingflokkur Flokks fólksins kom saman í fyrsta sinn eftir kosningar í dag.

Formenn Samfylkingar og Flokks fólksins segja stjórnarandstöðuflokkana ræða óformlega saman um möguleika á samstarfi komi til þess að ríkisstjórnarsamstarfinu verði ekki fram haldið. Logi Einarsson segir að ef til vill ráðist framtíðin á miðjunni eins og formaður Framsóknar hafi sagt. Þá sé Samfylkingin til í allt.