Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grófu upp lömb sem fennti í skurðum heima við bæ

28.09.2021 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: Sævar Guðjónsson - Facebook
Mestallt fé er komið af fjalli á Norðurlandi enda seinni göngum víðast hvar lokið. Bændur þar hafa því meiri áhyggjur af lambfé sem komið er heim á bæi og getur lent þar í hættu. Í Víðidal þurfti að grafa upp nokkur lömb sem fennti í kaf í skurðum heima við bæ.

Sauðfjárbændur á Norðurlandi hafa almennt litlar áhyggjur af fé í afrétti þar sem seinni göngum er almennt lokið og fáar kindur því eftir til fjalla. Bændur hafa í gær og dag unnið við að hýsa lambfé sem komið er heim á tún, eða eru búnir að ná flestu í hús.

Þurftu að moka upp um fimmtán lömb

Maríanna Eva Ragnarsdóttir er bóndi á Stórhóli í Víðidal, en þar fennti eitthvað af lömbum í gær. „Fé sem við vorum að heimta um helgina, settum við á afmarkað svæði hér heima við bæ. Um 20 lömb af því fennti, fóru ofan í skurði og voru að reyna að komast í var.“ Hún segir að þau hafi þurft að moka upp um fimmtán lömb. 

Ná ekki að hýsa allt féð

Og þau ákváðu að hýsa öll lömb, en það er langt frá því að bændum takist að hýsa allt það fé sem komið er heim. „Við erum núna með einhver 500 lömb inni og höfðum ærnar úti, þær eru á nokkuð öruggum stað þannig að vonandi verður þetta bara allt í lagi,“ segir Maríanna.

Seinni göngur á Vestfjörðum um næstu helgi 

Smölun á Vestfjörðum er skemmra á veg komin og þar eru seinni göngur víða áætlaðar um helgina. Þar hafa bændur áhyggjur af fé sem er hæst uppi, en þar sem veðrið á að ganga hratt yfir er talið líklegast féð komi sér almennt í skjól og sleppi að mestu.