Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki staðfest að meðferð kjörgagna var fullnægjandi

28.09.2021 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, las upp bókun hennar að loknum fundi hennar nú rétt í þessu þar sem fram kom að ekki hefði borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi. Boltinn væri núna hjá Alþingi sem hefur það hlutverk samkvæmt stjórnarskrá að staðfesta úrslit þingkosninganna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur landskjörstjórn ekki gefið út svona yfirlýsingu áður eftir þingkosningar. Landskjörstjórn mun síðan gera grein fyrir vinnu sinni á fundi með kjörbréfanefnd þann 5. október þegar hún úthlutar kjörbréfum.

Kristín vildi ekki tjá sig frekar, það væri Alþingis að taka við boltanum núna. Hún ítrekaði að landskjörstjórn hefði óskað eftir staðfestingu frá yfirkjörstjórn Norðvesturlands um að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi og að sú staðfesting hefði ekki borist.  

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, segir í samtali við fréttastofu að hann telji sig hafa sent staðfestingu á því að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi.  Hann hafi sent sína greinargerð og málinu teljist lokið af hans hálfu.

Kristín vísaði í yfirlýsingunni til 46. greinar stjórnarskrár þar sem kveðið er á um að Alþingi skeri sjálft úr, hvort þingmenn séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

Eftir því sem fréttastofa kemst er landskjörstjórn með þessari bókun að vísa því til Alþingis hvort skortur á þessari staðfestingu sé næg ástæða til að ógilda kosninguna í Norðvesturkjördæmi og nauðsynlegt verði að boða til svokallaðrar uppkosningar í kjördæminu.

Verði það niðurstaðan verður að boða til uppkosningar innan mánuðar og niðurstað þeirrar kosningar gæti haft mikil áhrif á hverjir verða þingmenn og hverjir ekki. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV