Aldrei fleiri COVID-dauðsföll í Rússlandi

28.09.2021 - 13:14
epa08341256 A doctor dressed in protective clothing measures a woman?s temperature with an electronic thermometer at a temperature control post in Moscow, Russia, 03 April 2020. Russian authorities extended a home quarantine till the end of April to prevent the spreading of the coronavirus SARS-CoV-2 pandemic.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
Vegfarandi mældur á götu í Moskvu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Alls létu 852 lífið af völdum COVID-19 í Rússlandi á síðasta sólarhringnum, og ekki hefur verið tilkynnt um svo mörg COVID-dauðsföll á einum sólarhring þar í landi frá upphafi faraldursins. Smitum hefur fjölgað hratt í Rússlandi á síðustu vikum og bólusetning gengið hægar en vonast var til. Rússnesk yfirvöld hafa verið sökuð um að gera lítið úr alvarleika faraldursins.

Alls hafa 205.531 dáið úr COVID-19 í Rússlandi, fleiri en í nokkru öðru Evrópulandi. Landið er sagt það fimmta verst útleikna í faraldrinum á heimsvísu. Um sjö milljónir Rússa hafa smitast og útbreiðslan hefur aukist mjög eftir að Delta-afbrigðið tók yfir. Borgaryfirvöld í höfuðborginni Moskvu vöruðu í dag við yfirvofandi fjölgun spítalainnlagna.

Meirihluti Rússa vill ekki þiggja bólusetningu við COVID-19 og þótt yfirvöld hafi hvatt til bólusetninga og boðið gjaldfrjálsar sprautur frá því í desember hafa aðeins um 28 prósent Rússa fengið bólusetningu. Markmiðið var að bólusetja minnst 60 prósent þjóðarinnar. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV