Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill vera áfram í félagsmálaráðuneytinu

27.09.2021 - 09:23
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segist vilja halda áfram í því embætti á næsta kjörtímabili. Hann hafi í raun meiri áhuga á að starfa á vettvangi félagsmála en sem alþingismaður.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að mig langar til þess að halda þessum verkefnum áfram, klára vinnuna í málefnum barna og klára innleiðingu á þeim frumvörpum sem voru samþykkt í vor. Þetta eru gríðarlega stórar breytingar sem þarf að fylgja eftir og eins að taka næstu skref sem lítur að öllum þjónustuúrræðum fyrir börn,“ segir Ásmundur.

„Svo langar mig að taka fleiri málaflokka með sama hætti, málefni eldra fólks, málefni fólks sem hefur lent í áföllum og beita sömu hugmyndafræði, það er að grípa fyrr inn í með lágþröskuldaúrræðum til þess að draga úr áhrifum á líf þessa fólks síðar meir en ekki síst á ríkissjóð,“ segir hann.

„Ég var mjög hugsi fyrir fjórum árum þegar ég steig þarna inn í ráðuneytið hvort ég yfirhöfuð myndi valda því og hvernig það myndi ganga. Ég vissi samt að mig langaði að leggja áherslu á málefni barna og síðan hef ég fundið mig betur og betur og langar að starfa á þessum vettvangi sem tengist þessu, eiginlega mun frekar en að starfa sem alþingismaður ef ég á að vera alveg heiðarlegur,“ segir hann.

Þingflokkur Framsóknarflokksins kemur saman til fundar í dag. „Nú fer í höfn samtal um næstu skref og formenn stjórnarflokkanna munu funda í dag. Þingflokkurinn okkar kemur saman til fyrsta fundar í dag og nú taka við ekki síður spennandi tímar,“ segir Ásmundur.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV