Tíu nemum sleppt úr haldi vígamanna í Nígeríu

27.09.2021 - 01:52
Vísinda- og tækniskóli ríkisins í Kankara í Nígeríu er heimavistarskóli fyrir unglingspilta. Vopnaðir menn réðust þar til atlögu síðla kvölds föstudaginn 11. nóvember 2020 og rændu allt að 400 piltum.
Hluti af heimavistarskólanum; Vísinda- og tækniskóla ríkisins, í Kankara í Katsína-ríki í norðvestanverðri Nígeríu Mynd: AP
Vígamenn í Nígeríu slepptu í gær tíu nemendum sem þeir rændu fyrir rúmum tveimur mánuðum. Nemendurnir voru meðal rúmlega hundrað nemenda sem rænt var úr heimavistarskóla í norðvestanverðri Nígeríu snemma í júlí.

Eftir að nemendunum tíu var sleppt eru ellefu enn eftir í haldi vígamannanna. Lausnargjald var greitt fyrir þá sem sleppt var í gær. 

Færst hefur í aukana undanfarna mánuði að vígamenn ræni nemendum úr skólum og krefji foreldrana lausnargjalds. yfir þúsund börn hafa verið tekin úr skólum í norðanverðri Nígeríu síðan í desember í fyrra, og flestum þeirra sleppt eftir samningaviðræður.