Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tilræðismaður Reagans látinn laus án skilyrða

27.09.2021 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Ronald Reagan Presidential Libra
John Hinckley, maðurinn sem reyndi að myrða Ronald Reagan Bandaríkjaforseta fyrir 40 árum, verður látinn laus án skilyrða eða takmarkana á ferðafrelsi í júní 2022.

Hinckley, sem núna er 66 ára, var dæmdur ósakhæfur vegna geðveiki í kjölfar þess að skjóta Reagan og þrjá aðra menn fyrir utan hótel í Washington þann 30. mars 1981.

Hann náðist við ódæðið og sagði við yfirheyrslur að hann vildi drepa forsetann til að vekja hrifningu leikkonunnar Jodie Foster, sem hann varð heltekinn af eftir að hafa horft á myndina „Taxi Driver.“

Hinckley var sleppt undir ströngum skilyrðum árið 2016 af geðsjúkrahúsi í Washington þar sem hann hafði verið í haldi frá morðtilrauninni. Þeim skilyrðum verður aflétt í júní á næsta ári.

Ronald Reagan stofnunin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsti sig með öllu andsnúna úrskurðinum. 

„Öfugt við ákvörðun dómarans teljum við að John Hinckley sé enn ógn við aðra og við erum eindregið á móti því að honum verði sleppt,“ sagði í yfirlýsingunni.

Reagan forseti, blaðafulltrúi hans, James Brady, lögreglumaður og leyniþjónustumaður særðust þegar Hinckley skaut að forsetanum.

Jón Agnar Ólason