Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tíðindalaust á náttúruvár-vígstöðvunum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Á meðan landinn er talsvert skekinn vegna skakkafalla í talningu atkvæða sem greidd voru í alþingiskosningunum um liðna helgi kveður heldur við annan tón á vettvangi náttúruvár hér á landi. Þar ríkir kyrrð og ró, alltént í augnablikinu.

Hvort heldur horft er til Fagradalsfjalls eða Öskju þá virðist allt með kyrrum kjörum, bæði í eldstöðinni á Reykjanesi og eins við Öskju. Hvort um er að ræða svikalogn eða raunveruleg rólegheit til lengri tíma verður að koma í ljós með tíð og tíma, eins og Elísabet Pálmadóttir, nátturuvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í spjalli við fréttastofu í dag.

Stefnir í lengsta goshléið frá upphafi umbrota á Reykjanesi

„Það er bara mjög rólegt á svæðinu. Það er í raun og veru mjög lítill órói og lítil skjálftavirkni og þetta hefur staðið frá 18. september. Þannig að við stefnum í lengstu pásuna í gosinu á morgun,“ en haldi eldstöðin í Fagradalsfjalli ró sinni út morgundaginn er þar með um lengsta goshléið sem orðið hefur á eldsumbrotunum á Reykjanesi síðan gosið hófst þann 19. mars síðastliðinn.

Elísabet sagði að þrátt fyrir þetta væri engin leið að útiloka aðra gusu eins og gerði vart við sig um daginn þegar hraun fór skyndilega að flæða myndarlega úr gígnum við Fagradalsfjall. Sá möguleiki er eftir sem áður fyrir hendi.

„Já, algerlega. Við þurfum bara að fylgjast með, það er í raun og veru ekkert hægt að segja fyrir um það hvernig þetta gos hegðar sér,“ sagði Elísabet og bætti því við að sérfræðingar á Veðurstofunni væru að læra af gosinu á Reykjanesi frá degi til dags.

Náttúruvársérfræðingar á leið að Öskju 

Hvað eldstöðina í Öskju áhrærir sagði Elísabet svipað þar uppi á teningnum, allt meinhægt og tiltölulega tíðindalaust. Þó er þar viðvarandi skjálftavirkni sem kallar á frekari gagnasöfnun að mati náttúruvársérfræðinga Veðurstofunnar.

„Það heldur áfram jarðskjálftavirknin þar á svæðinu og landrishraðinn virðist vera svipaður. Nú eru akkúrat sérfræðingar frá Veðurstofunni að fara á svæðið til að bæta við mælitækjum og það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr því næstu daga.“

Að sögn Elísabetar hefur þó framvindan á Öskjusvæðinu ekki enn gefið skýrar vísbendingar um hvers má vænta þar í framhaldinu.

„Nei, það þarf bara að fylgjast áfram vel með.“