Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Jafnaðarmannaflokkurinn lýsir yfir sigri

27.09.2021 - 11:47
epa09491172 Top candidate of the German Social Democratic Party (SPD) Olaf Scholz during a press conference in the aftermath of the German general elections, in Berlin, Germany, 27 September 2021. According to preliminary results, the SPD won the federal elections on 26 September by a small margin.  EPA-EFE/JOERG CARSTENSEN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ACTION PRESS POOL
Jafnaðarmannaflokkurinn í Þýskalandi hefur lýst yfir sigri í þingkosningum í landinu í gær. Olaf Scholz, varakanslari og fjármálaráðherra Þýskalands, segir að hann hafi skýrt umboð til þess að mynda ríkisstjórn. Flokkurinn er sá stærsti eftir þingkosningarnar.

Flokkurinn hlaut 25,7 prósent atkvæða, en Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel fráfarandi kanslara, hlaut 24,1 prósent. Fylgi Jafnaðarmanna jókst um rúmlega fimm prósentustig frá síðustu kosningum, en fylgi Kristilegra demókrata er það versta í sögunni, nærri níu prósentustigum minna en fyrir fjórum árum.

Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata, hefur lýst vilja til að láta reyna á áframhaldandi stjórnarsamstarf. Scholz segir hins vegar tímabært að mynda stjórn með Græningjum og Frjálslyndum, segir í umfjöllun BBC og Deutsche Welle. 

Græningjar bættu við sig nærri sex prósentustiga fylgi og hljóta 14,8 prósent. Frjálslyndir demókratar koma þar á eftir með 11,5 prósent, 0,7 prósentustigum meira en 2017, og þjóðernisflokkurinn AfD hlaut 10,3 prósent atkvæða, 2,3 prósentustigum minna en fyrir fjórum árum.
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV