Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eðlilegt að gerð verði krafa um ráðherrastól

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Ingibjörg Ólöf Isaksen er ein af nýju þingmönnum Alþingis. Hún leiddi lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi en þar var aukning fylgis mest á landinu. Í kosningunum 2017 fékk flokkurinn rúm 14% atkvæða en 25,6% í kosningunum nú.

Þú byrjar kannski á að segja mér hvort að þessi mikli kosningasigur Framsóknar hafi komið á óvart? „Já, hann kom mér á óvart. Við fundum fyrir meðbyr, ég get alveg sagt það, og hérna í Norðausturkjördæmi fundum við fyrir miklum meðbyr í kosningabaráttunni okkar. En þetta er bara vonum framar.“

Þú ert að fara úr bæjarpólitíkinni yfir í landsmálin, gerirðu ráð fyrir að það sé mjög ólíkt? „Þetta er töluvert stærra, stærra svæði og stærri málefni. En þetta tengist allt saman. Ríki og sveitarfélög þurfa líka að vinna náið saman þannig að það er mjög gott að geta nýtt reynsluna mína  úr sveitarstjórnarmálum inn í Alþingismálin.“

Þannig að þetta leggst bara vel í þig? „Já, mjög, ég hlakka mikið til.“

Og hvaða áherslumál munu vera hjá þér? „Ég brenn mikið fyrir heilbrigðismálum og orkumálum. Síðan einnig innviðum hér á landsbyggðinni, að efla landsbyggðina það er gríðarlega stórt verkefni sem liggur fyrir og við þurfum öll að hamra á því.“

Þannig að munt berjast fyrir Norðausturkjördæmi sérstaklega? „Að sjálfsögðu, það er vinnan mín meðal annars.“

Nú leiðir þú þennan stóra lista Framsóknar í Norðurlandskjördæmi eystra og spurningin um ráðherrastól, er hún komin upp? „Ég hef verið spurð reglulega að því í morgun en þetta er eins og ég segi, þetta er stór kapall sem þarf að leggja og margar breytur sem geta haft áhrif. En mér finnst það alveg eðlileg krafa í ljósi niðurstaða kosninganna. Við höfum gríðarlega stórt umboð hér í Norðausturkjördæmi, að það sé skoðað.“

 

 

 

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir