Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bretar íhuga að fá herinn til að dreifa eldsneyti

27.09.2021 - 04:37
Erlent · Bretland · Brexit · Evrópa
epa09484818 A BP petrol station is pictured in London, Britain, 24 September 2021. A small number of BP petrol stations are closed due to problems with transporting the fuel from refineries amid the nationwide scarcity of truck drivers in the UK.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska ríkisstjórnin ætlar að afnema samkeppnislög tímabundið til þess að auðvelda eldsneytisdreifingu í landinu. Víða hafa eldsneytisstöðvar orðið uppiskroppa þar sem viðskiptavinir hafa fyllt á brúsa til þess að vera vissir um að eiga nóg. Stjórnvöld hafa reynt að segja þjóðinni að kaupa ekki eldsneyti í örvæntingu, því nóg sé til.

Illa hefur gengið að fylla á eldsneytisbirgðir á smásölustöðum í Bretlandi vegna skorts á vöruflutningabílstjórum. Fréttastofa BBC hefur heimildir fyrir því að ráðherrar hafi íhugað að kalla út herinn til að dreifa eldsneyti um landið. Samkvæmt landssamtökum eldsneytissala er ekkert eldsneyti að fá í tveimur af hverjum þremur þeirra rúmlega 5.000 dælustöðva sem finna má í landinu. Lítið er eftir í síðasta þriðjungnum.

Viðskiptaráðherrann Kwasi Kwarteng tilkynnti í gær að samkeppnislögum verði tímabundið hnekkt. Það er gert til þess að auðvelda olíudreifingarfyrirtækjum að deila upplýsingum og forgangsraða því hvar eldsneytis sé mest þörf í landinu. Hann sagði jafnframt að nægt eldsneyti væri fyrir landsmenn í birgðastöðvum.

Skortur á vöruflutningabílstjórum hefur leitt til vandræða fyrir fleiri en eldsneytisstöðvar. Stórmarkaðir og skyndibitakeðjur hafa einnig fundið fyrir því. Ástæðan fyrir skortinum er að margir bílstjóranna voru frá Austur-Evrópu, og fengu ekki lengur landvistarleyfi eftir að Bretar sögðu sig úr Evrópusambandinu. Breska stjórnin tilkynnti á laugardag að hún ætli að bjóða fimm þúsund vöruflutningabílstjórum landvistarleyfi fram að jólum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV