Auglýsir eftir kröfum í þrotabú Hótels Sögu

27.09.2021 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Radissons Hotels - Mynd
Áslaug Árnadóttir hefur verið skipuð skiptastjóri þrotabús Hótels Sögu en það var tekið til gjaldþrotaskipta 22. september. Kröfuhafar hafa nú tvo mánuði til að lýsa kröfu sínum í þrotabúið en skiptafundur fer fram á skrifstofu skiptastjóra þann 13. desember.

Hótel Saga er rekstrarfélag hótelsins sem fór illa útúr kórónuveirufaraldrinum. Það stóð meira og minna tómt þegar ferðir til og frá landinu lögðust niður um tíma. 

Rekstrarfélagið var í greiðsluskjóli fram í apríl og fékk frest til fjárhagslegrar endurskipulagningar til 7. júlí.   

Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna sagði við fréttastofu í júní að margir hefðu sýnt áhuga á að kaupa Bændahöllina sem hefur verið í eigu bænda í tæpa sex áratugi.  

Meðal síðustu gesta á hótelinu voru leikmenn enska landsliðsins. Eins og frægt er orðið brutu tveir þeirra sóttvarnareglur þegar þeir buðu íslenskum stelpum upp á herbergi til sín.