Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórnin hélt velli - Framsókn sigurvegari kosninganna

26.09.2021 - 06:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin hélt velli og rúmlega það í Alþingiskosningunum. Eins og staðan er núna er hún með 38 þingmenn. Átta flokkar náðu kjöri. Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna og Flokkur fólksins kom á óvart með góðu gengi.

Þótt lokatölur séu ekki komnar eru línurnar farnar að skýrast,  það sem gæti helst breyst er hverjir komast inn á þing sem jöfnunarþingmenn. Nú eru lokatölur komnar í Reykjavíkurkjördæmunum báðum, Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkurinn á þingi, með 17 þingmenn eins og eftir síðustu kosningar.

Framsóknarflokkurinn fær 13 þingmenn, bætir við sig fimm þingmönnum og er ótvíræður sigurvegari kosninganna, fær til að mynda þingmann í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð er eini stjórnarflokkurinn þar sem það fækkar í þingliðinu, flokkurinn fær átta þingmenn og missir því þrjá frá síðustu kosningum.  

Samanlagt fá ríkisstjórnarflokkarnir því 38 þingmenn, eins og staðan er núna. Forystumenn flokkanna þriggja lýstu því yfir fyrir kosningarnar að ef ríkisstjórnin héldi velli yrði það fyrsti kostur að ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Flokkur fólksins getur vel við unað eftir nóttina, flokkurinn fær sex þingmenn og bætir við sig tveimur frá síðustu kosningum. Meðal nýrra þingmanna flokksins eru Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon og Tómas Andrés Tómasson, oftast kenndur við Hamborgarabúlluna. 

Lengi vel leit út fyrir að Miðflokkurinn kæmi manni ekki inn á þing en það breyttist þegar líða tók á nóttina. Flokkurinn tapar engu að síður fjórum þingmönnum og í stað þess að vera stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn eins og hann var er hann sá minnsti með þrjá þingmenn..  Samfylkingin fær sex og tapar einum en Píratar fara úr sex þingmönnum í fimm.  Viðreisn bætir við sig einum þingmanni, fær fimm þingmenn en hann var með fjóra.

Kannanir höfðu sýnt að Sósíalistaflokkurinn næði manni inn en í þessum töluðu orðum er hann nokkuð langt frá fimm prósenta viðmiðinu, er með tæplega fjögur prósent atkvæða.

Fréttin hefur verið uppfærð.