Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Staðan óljós eftir misræmi í Norðvesturkjördæmi

26.09.2021 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Endurtalning í Norðvesturkjördæmi hefur leitt í ljós misræmi í talningu atkvæða.

„Það var mislesið hjá Viðreisn, þar fækkar atkvæðum um níu. Svo fækkaði atkvæðum hjá Miðflokknum um fimm. Á móti fjölgar hjá Sjálfstæðisflokki,“ segir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.

Tölur eftir endurtalningu: 

Framsóknarflokkur - 4.448 atkvæði
Viðreisn - 1.063 atkvæði
Sjálfstæðisflokkur - 3.897 atkvæði
Flokkur fólksins -  1.510 atkvæði
Sósíalistaflokkur Íslands - 728 atkvæði
Miðflokkur - 1.278 atkvæði
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - 73 atkvæði
Píratar - 1.081 atkvæði
Samfylking - 1.195 atkvæði
Vinstri græn - 1.978 atkvæði

Aðeins munaði tíu atkvæðum á milli Pírata og Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Viðreisn fékk inn jöfnunarþingmann í kjördæminu, en aðeins munaði örfáum atkvæðum á því hvar þeirra jöfnunarmaður myndi lenda. Vegna þess hversu mjótt var á munum var ákveðið að telja aftur.

Það að Viðreisn fái sinn jöfnunarþingmann inn í öðru kjördæmi, þá riðlast röðun jöfnunarþingmanna í öllum kjördæmum.

Það gæti til dæmis haft áhrif á kynjahlutfallið á þingi og komið í veg fyrir að konur yrðu þar í meirihluta, eins og hefur vakið heimsathygli eftir kosningarnar í gær.

Fóru yfir verkferla í Suðurkjördæmi

Í framhaldi af endurtalningu í Norðvesturkjördæmi vöknuðu spurningar hvort einnig þyrfti að telja aftur í Suðurkjördæmi, því þar var ekki síður mjótt á munum. Aðeins munaði sjö atkvæðum á Miðflokki og Vinstri grænum, og Samfylkingin er sömuleiðis aðeins 70 atkvæðum frá. 

„Í morgun höfðum við samband við landskjörstjórn og fengum upplýsingar þaðan að það er mjótt á munum. Við fórum þá yfir okkar verkferla frá A-Ö í flokkun og talningu atkvæða. Þegar við vorum búin að fara vel yfir tíu prósent atkvæða og ekkert misræmi komið í ljós, töldum við okkur vera komin á endastöð og að okkar vinnubrögð stæðust þá prófun. Svo við erum sátt við niðurstöðuna,“ segir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.

 

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV