Öll atkvæði í Norðvesturkjördæmi talin aftur

26.09.2021 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hefur ákveðið að telja öll atkvæðin í kjördæminu aftur vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum milli kjördæma.

Vísir greindi fyrst frá. Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir við fréttastofu að enginn hafi óskað eftir endurtalningu heldur hafi það verið ákvörðun yfirkjörstjórnar. 

Ingi segir að nú sé beðið eftir því að fá fólk á staðinn til þess að telja, en talning ætti ekki að taka meira en þrjá tíma. Ef einhver skekkja kemur fram í tölunum gæti það haft áhrif á það í hvaða kjördæmum flokkarnir fá menn inn sem jöfnunarþingmenn.

Mjög sjaldgæft er að telja þurfi öll atkvæði aftur í heilu kjördæmi.

Jöfnunarþingsætum er ætlað að vega gegn misvægi atkvæða í kjördæmakerfinu en sætin eru tvö í fjölmennustu kjördæmunum, Reykjavík suður og norður og Suðvesturkjördæmi en eitt í hverju landsbyggðarkjördæmanna. 

Miðað við lokatölur sem birtust í morgun náði Guðmundur Gunnarsson jöfnunarsæti fyrir Viðreisn í kjördæminu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV