Fyrstu kosningar eftir hrun án nýs flokks á þingi

26.09.2021 - 06:14
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Enginn nýr flokkur náði þingmönnum á Alþingi í kosningunum í ár. Það er þá í fyrsta skipti eftir hrun sem slíkt gerist. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og Ábyrg framtíð voru bæði víðsfjarri því að komast á þing og Sósíalistaflokkur Íslands náði um fjögurra prósenta fylgi. Fimm prósent atkvæða þarf til að fá jöfnunarsæti.

Segja má að eitt af einkennum kosninga eftir hrun sem er ólíkt því sem var fyrir hrun sé tilkoma nýrra stjórnmálaflokka. Í fjórum Alþingiskosningum 2009 til 2017 gerðist það tvisvar að einn nýr flokkur fékk fulltrúa á þingi og jafn oft að tveir nýir flokkar næðu á þing. Slíkt var sjaldgæfara fyrir hrun.

Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn árið 2009, í fyrstu kosningunum eftir hrun. Fjórum árum síðar fengu Píratar þrjá þingmenn og Björt framtíð sex. Björt framtíð hafði reyndar verið stofnuð af tveimur þingmönnum úr öðrum flokkum sem áttu fyrir sæti á Alþingi. Kosningar fóru næst fram árið 2016 og þá fékk Viðreisn sjö þingmenn kjörna í fyrstu atlögu sinni að því að komast á þing. Fyrir fjórum árum náðu svo bæði Miðflokkurinn (sjö þingmenn) og Flokkur fólksins (fjórir) mönnum á þing.

Fyrir þann tíma hafði nýr flokkur ekki náð inn á þing frá því í þingkosningunum 1999. Þá voru þeir reyndar þrír talsins; tveir á gömlum grunni, Samfylkingin og Vinstri-græn, og einn klofningsflokkur, Frjálslyndi flokkurinn. 1995 hafði Þjóðvaki náð inn á þing.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV