Framsókn í mikilli sókn

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Framsóknarflokkurinn bætir við sig fimm þingmönnum og stefnir í að verða næststærsti flokkurinn á þingi. Fylgi flokksins á landsvísu er samkvæmt nýjust tölum 17,7% og myndi það skila flokknum 13 þingmönnum – nokkru meira en kannanir sýndu.

Flokkurinn bætir við sig í öllum kjördæmum og er stærstur allra flokka í Norðausturkjördæmi.

Engin spurning er hvort ríkisstjórnin haldi velli enda eru ríkisstjórnarflokkarnir þrír með rúman meirihluta, 41 þingmann.

Raunar þarf lítið til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nái meirihluta þingmanna án Vinstri grænna. Samanlagt hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn 31 þingmann, einum frá hreinum meirihluta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, vildi ekki tjá sig um hugsanlega tveggja flokka stjórn í sjónvarpssal fyrr í kvöld. „Ég ætla að bíða með að tjá mig um möguleg stjórnarsamstörf þar til við höfum séð gleggri tölur,“ sagði Sigurður Ingi.