Fóru yfir verkferla í Suðurkjördæmi en telja ekki aftur

26.09.2021 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atkvæði verða ekki talin aftur í Suðurkjördæmi eins og raunin er í Norðvesturkjördæmi, vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum milli kjördæma.

Tíu atkvæði eru á milli Pírata og Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Ef einhver skekkja kemur fram í tölunum gæti það haft áhrif á það í hvaða kjördæmum flokkarnir fá menn inn sem jöfnunarþingmenn. 

Viðreisn var nálægt því að fá jöfnunarþingmann í Suðurkjördæmi. Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar þar segir að strax hafi vakið athygli hversu mjótt var á munum.

„Í morgun höfðum við samband við landskjörstjórn og fengum upplýsingar þaðan að það er mjótt á munum. Við fórum þá yfir okkar verkferla frá A-Ö í flokkun og talningu atkvæða. Í framhaldi af því gerðum við úrtaks- og gæðakönnun á þeim verkferlum, fórum yfir allar talningar og tókum tilviljanakennt úrtak bæði á kjörfundaratkvæðum og utankjörfundaratkvæðum,“ segir Þórir. Niðurstaðan hafi verið að fara ekki í allsherjar endurtalningu.

„Þegar við vorum búin að fara vel yfir tíu prósent atkvæða og ekkert misræmi komið í ljós, töldum við okkur vera komin á endastöð og að okkar vinnubrögð stæðust þá prófun. Svo við erum sátt við niðurstöðuna.“

Í Suðurkjördæmi munar aðeins sjö atkvæðum á Miðflokki og Vinstri grænum, og Samfylkingin er sömuleiðis aðeins 70 atkvæðum frá. Þórir segir að það sé sjaldgæft að svona mjótt sé á munum.  

„Þetta er kannski ný staða sem við horfum fram á. En þá þarf bara áfram að gæta að vinnubrögðunum. Það er ekkert að því að telja aftur, alls ekki, en það er heldur ekki gert nema ástæða er til þess. Við stöndum við að þetta úrtak fullnægi okkar kröfu um gæðaprófun á okkar vinnubrögðum og að niðurstaðan sé í samræmi við lög og reglur,“ segir Þórir Haraldsson.