Enginn þingmaður frá Flúðum austur á Fáskrúðsfjörð

26.09.2021 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: grafík: Sigurður Kristján Þ? - RÚV
Enginn þingmaður er búsettur frá Flúðum í vestri að Fáskrúðsfirði í austri. Vestfirðingar eiga tvo þingmenn en Austfirðingar einn. Enginn þingmaður er úr Vestmannaeyjum.

Nú þegar niðurstaða Alþingiskosninganna liggur fyrir er áhugavert að skoða hvernig þeir dreifast um landið. Þingmenn Suðurkjördæmis eru flestir búsettir á Suðurnesjum eða rétt austan fjalls, en sá þingmaður sem býr austast í kjördæminu er Sigurður Ingi Jóhannsson, en hann býr í Hrunamannahreppi.

Þaðan og austur á Fáskrúðsfjörð er enginn þingmaður búsettur. Þar býr flokkssystir Sigurðar Inga, Línek Anna Sævarsdóttir. Vestmannaeyingar hafa löngum átt þingmann en á því verður breyting nú. Karl Gauti Hjaltason sem sat sem þingmaður Miðflokksins á seinasta kjörtímabili var til að mynda þaðan sem og Páll Magnússon sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Unnur Brá Konráðsdóttir var kjörin á þing árið 2013. Hún var fulltrúi Rangárvallasýslu þá. 

Líneik er eini þingmaður Austfirðinga, en hún og Jódís Skúladóttir eru einu þingmenn Austurlands. Aðrir þingmenn í Norðausturkjördæmi eru frá Akureyri og nærsveitum á Eyjafjarðarsvæðinu. Tveir þingmenn kjördæmisins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jakob Frímann Magnússon eru ekki búsettir í kjördæminu. 

Vestfirðingar eiga tvo þingmenn, þau Guðmund Gunnarsson sem kemur nýr á þing fyrir Viðreisn og Höllu Signý Kristjánsdóttur hjá Framsókn. Þingmenn kjördæmisins dreifast nokkuð jafnt um kjördæmið. Þó er enginn fulltrúi úr Húnavatnssýslum eða Snæfellsnesi, sem er nokkuð stórt landsvæði.