„Alveg til í að bresta í söng fyrir allt kvöldið!“

26.09.2021 - 02:01
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
„Ég trúði því varla að það ætti að stilla mér aftur upp við þetta púlt,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, þegar leiðtogarnir voru spurðir hvort þeir voru orðnir þreyttir svona þegar kosningabaráttan var búin og komin nokkuð góð mynd á það hvernig kosningarnar munu fara.

Inga er einn þeirra flokksleiðtoga sem uppskera hvað best eftir þessa kosningavertíð, svo hún má vera fúin, eins og hún orðar það sjálf eftir að hafa hamast við að koma skilaboðum sínum til kjósenda.

Segja má að Flokkur fólksins sé senuþjófur kvöldsins. Flokkurinn bætir töluvert við sig í öllum kjördæmum frá síðustu kosningum. Inga var að vonum glöð með niðurstöðurnar. „Ég er alveg til í að bresta í söng fyrir allt kvöldið!“ sagði Inga.

Flokkur hennar hefur fengið 8,9 prósent talinna atkvæða á landsvísu og fær sex þingmenn kjörna, ef það verða úrslitin þegar allt er talið. Flokkurinn fékk fjóra þingmenn á síðasta kjörtímabili. Tveimur þingmönnum var svo vikið úr flokknum í kjölfar Klausturmálsins svo síðustu ár hefur flokkurinn verið sá minnsti á Alþingi.

Inga þakkaði kjósendum og fólkinu á bak við flokkinn þessar niðurstöður. „Við höfum fundið meðbyrinn og fundið gæskuna.“

„Ég er ótrúlega auðmjúk; ég er snortin gagnvart þessum tölum og ég ætla svo sannarlega að vona að þó að kollegar mínir syngi allir að nóttin sé ung þá ætla ég að vona að nóttin beri akkúrat með sér það sem við eigum eftir að vakna við í fyrramálið.“

„Ég finn fyrir þessari ábyrgð og þessu trausti sem er verið að sýna Flokki fólksins. Og við erum komin til að sjá og sigra Sigurjón Digra. Ég mun ekki skorast undan því.“