Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Víkingur Reykjavík Íslandsmeistari í knattspyrnu

Mynd með færslu
 Mynd: MummiLú - RÚV

Víkingur Reykjavík Íslandsmeistari í knattspyrnu

25.09.2021 - 16:40
Það var mikil dramatík og spennan var allsráðandi þegar lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu fór fram í dag. Víkingur stóð uppi sem Íslandsmeistari og ÍA bjargaði sér frá falli á ótrúlegan hátt. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Víkings síðan árið 1991.

Mikil barátta var á toppi og botni úrvalsdeildarinnar fyrir leiki dagsins og margt sem gat gerst. Tvö lið gátu staðið uppi sem sigurvegarar, Víkingur sem tók á móti Leikni annars vegar og hins vegar Breiðablik sem mætti HK í nágrannaslag á Kópavogsvelli. 

Víkingar settu tóninn snemma
Það var Nikolaj Hansen sem skoraði fyrsta markið í toppbaráttunni þegar hann kom Víkingum yfir með góðu skallamarki á 30. mínútu leiksins, þetta var 16 mark Danans á leiktíðinni. Fögnuðurinn varð svo enn meiri í Víkinni þar sem 2026 áhorfendur komu saman þegar Erlingur Agnarsson kláraði vel af stuttu færi og kom Víkingum 2-0 yfir. 

Á meðan heyrðist lítið hinu megin við hæðina í Kópavoginum en þar var staðan markalaus í hálfleik, Kristinn Steindórsson kom heimamönnum hins vegar yfir eftir 51. mínútna leik og í kjölfarið komu tvö mörk til viðbótar og sigur Breiðabliks staðreynd. 

Víkingar aftur á móti kláruðu sitt verkefni sem var það eina sem þeir þurftu að gera komandi inn í daginn, lokatölur í Víkinni 2-0 og Víkingur er Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan liðið hampaði titlinum árið 1991 í Garðinum. Þar að auki er Nikolaj Hansen markakóngur úrvalsdeildar karla árið 2021.

Björgun ÍA í Keflavík lyginni líkust
Í fallbaráttunni var sömuleiðis mikið í húfi fyrir þrjú lið, Keflavík, HK og ÍA. Staða ÍA fyrir leiki dagsins var verst, liðið var í næst neðsta sæti með 18 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni þar sem HK sat, stigi á eftir Keflavík sem var með 21 stig í 9. sæti.

Keflavík virtist vera að fara langleiðina með það að tryggja veru HK í deildinni þegar liðið komst 2-0 yfir eftir að ÍA brenndi af vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum. Allt kom þó fyrir ekki og ÍA skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik og tókst að halda sæti sínu í deildinni á ótrúlegan hátt. Þetta þýðir það að HK og Fylkir falla niður í 1. deild.