Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þú raðar saman púsluspilunum og færð meistaralið“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Þú raðar saman púsluspilunum og færð meistaralið“

25.09.2021 - 17:56
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga segist vera stoltur af því hvernig hans lið tæklaði sumarið sem hann segir hafa verið frábært fyrir íslenskan fótbolta. Víkingur varð í dag Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 2021.

„Ég er bara ótrúlega stoltur af liðinu hvernig við höfum höndlað sumarið og fengið stuðningsmenn Víkinga á okkar band og aðra stuðningsmenn í landinu. Þetta fótboltasumar er búið að vera geggjað, Blikarnir frábærir en við höfðum þetta á endanum,“ sagði Arnar í samtali við RÚV eftir leik Víkinga í dag en liðið vann Leikni 2-0 sem gulltryggði Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingar enduðu í þriðja neðsta sæti á síðasta tímabili og eru framfarirnar því miklar ár frá ári, Arnar segir að réttir leikmenn hafi fengið inn, varnarleikurinn hafi verið bættur og sóknarleikurinn sömuleiðis.
„Þú bara raðar saman púsluspilunum og á endanum færðu meistaralið,“ sagði Arnar sem gat einnig glaðst yfir því að uppeldisfélag hans, ÍA, bjargaði sér á ótrúlegan hátt frá falli með 3-2 sigri á Keflavík eftir að hafa lent 2-0 undir.

 

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Daninn Nikolaj Hansen er markakóngur úrvalsdeildar karla með 16 mörk í 21 leik í sumar. Hann hefur átt stóran þátt í velgengni Víkings en hann kom í Fossvoginn frá Val árið 2018.

„Þetta gerist ekki betra en þetta, það að Sölvi og Kári séu meistarar áður en þeir kveðja gleður mig, þetta verður ekki betra,“ sagði markakóngurinn í samtali við RÚV eftir leik.

„Ég er ánægður með mitt tímabil, ég hlýt að vera markakóngur? Ég reikna ekki með að Árna(Vilhjálmssyni) hafi tekist að skora fimm mörk? Mitt tímabil hefur verið frábært en þetta snýst ekki bara um mig.“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Kári Árnason var sömuleiðis máttarstólpi í vörn Víkinga þetta tímabilið og á stóran þátt í því að Víkingur sé Íslandsmeistari þetta árið, hann spilaði hins vegar ekki leikinn í dag þar sem hann tók út leikbann. Hann segir það þó ekki skipta öllu máli að hann hafi ekki spilað heldur sé það eina sem skipti máli að bikarinn komi í Fossvoginn.

„Þetta er bara eins og með bikarmeistaratitilinn 2019, það skiptir engu máli hvort ég sé inn á eða ekki, aðalatriðið er að við erum komnir með titilinn í dalinn,“ sagði Kári eftir leik.

„Við vorum búnir að teikna þetta upp sem átta úrslitaleiki og við unnum hvern einasta úrslitaleik, núna eru tveir leikir eftir og vinna bikarinn og taka báðar dollurnar.“

Víkingur mætir Vestra í undanúrslitum bikarkeppninnar um næstkomandi helgi og eiga enn möguleika á því að vinna tvöfalt þetta árið.